Skipverji af norska selveiðiskipinu Polarfangst sóttur með þyrlu í nótt

Fimmtudagur 10. apríl 2003.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF sótti fótbrotinn sjómann af norsku selveiðiskipi um borð í varðskip Landhelgisgæslunnar í nótt. 

Sjómaðurinn er úr áhöfn norska selveiðiskipsins Polarfangst sem aðstoðaði samlanda sína á selveiðiskipinu Polarsyssel í gær við að komast út úr ís áður en varðskip kom á staðinn.

Er varðskipið hafði tekið Polarsyssel í tog, hóf Polarfangst selveiðar að nýju og varð slysið er skipverjinn datt milli ísjaka.

Um kl. 17:15 bárust þær upplýsingar frá varðskipinu að skipstjóri Polarfangst hefði óskað eftir aðstoð varðskipsins vegna skipverja sem hafði fótbrotnað. Þá var verið að undirbúa að taka skipverjann um borð í varðskipið.

Eftir að skipverjinn var kominn um borð í varðskipið var læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar í sambandi við áhöfn þess.  Þegar í ljós kom að nauðsynlegt var að sækja hinn slasaða með þyrlu var áhöfn TF-LÍF kölluð út. 

Þyrlan fór í loftið kl. 21:19.  Þá var u.þ.b. 260 sjómílna leið að varðskipinu og varð þyrlan að lenda á Rifi til að taka eldsneyti áður en flogið var út á haf.

Varðskipið hélt áfram ferð sinni til Íslands með Polarsyssel í drætti og hinn slasaða um borð.

TF-LÍF lenti á Rifi kl. 21:45 og hélt aftur af stað í átt til varðskipsins kl. 22:20.  Það var svo kl. 24 á
miðnætti sem búið var að hífa hinn slasaða um borð í þyrluna.

TF-LÍF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 02:26 þar sem norska skipverjanum var komið undir læknis hendur.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands