Samræmdur gagnagrunnur um dýpi í lögsögu Íslands

Mánudagur 7. apríl 2003.

 

Dr. Guðrún Pétursdóttir forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu sl. föstudag í tilefni þess að fréttamönnum var boðið til kynningar á samræmdum gagnagrunni um dýpi í lögsögu Íslands:

 

Að verkefninu standa Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Landhelgisgæsla Íslands og Radíómiðun ehf, en verkefnið hefur hlotið myndarlega styrki frá Rannís undanfarin 2 ár.

 

Um er að ræða að koma öllum upplýsingum, innlendum og erlendum, sem til eru um dýpi á Íslandsmiðum í einn tölvutækan gagnagrunn, samkeyra grunnana og sannreyna gæði gagnanna með samanburði. Þannig má nýta mun betur upplýsingar sem ýmsir aðilar hafa safnað til mismunandi nota, en hafa til þessa ekki nýst sjófarendum beint. Meðal þeirra eru opinberar mælingastofnanir af ýmsu tagi, en einnig skipstjórar á fiskiskipum sem samþykkt hafa að leggja dýpisgögn í grunninn og Síminn sem safnað hefur upplýsingum í tengslum við lagningu sæstrengja.

 

Ætlunin er ekki að standa að nýjum mælingum eða búa til vísindalega hárnákvæmar upplýsingar, þetta kemur því ekki í stað þess starfs sem unnið er hjá sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum rannsóknaraðilum.  Heldur er verið að safna í einn grunn þeim gögnum sem til eru og gera þau aðgengileg og notendavæn fyrir sjófarendur, útgerðir, skipstjóra, fiskimenn, rannsóknarmenn og aðra þá sem þurfa á upplýsingum um hafdýpi að halda. Sérstök áhersla er lögð á að safna og tölvutaka upplýsingar um festur og flök, sem verið geta til trafala og skaðað veiðarfæri.

 

Staddur er hér á landi sérfræðingur, Mr. Pierre Gareau, frá hugbúnaðarfyrirtækinu Helical Systems í Kanada. Hann er að kenna starfsmönnum verkefnisins að nota Helical hugbúnað, sem er sérstaklega hannaður til að vinna með gífurlegt magn upplýsinga úr mismunandi grunnum. Hægt er að halda utan gögn úr hverjum grunni, sía út óeðlilegar mælingar, bera saman gögnin og sýna útkomuna í þrívídd frá öllum hliðum.

 

Nánari upplýsingar- Bakgrunnur

 

Upplýsingar um landgrunn Íslands er að finna á ýmsum stöðum hérlendis og erlendis, einkum hjá opinberum stofnunum, fyrst og fremst Landhelgisgæslu Íslands en einnig hjá Orkustofnun og Hafrannsóknastofnuninni, svo og hjá fyrirtækjum sem sérstaklega hafa safnað slíkum gögnum, eins og Radíómiðun ehf. Erlendir gagnagrunnar búa yfir miklum upplýsingum um hafsbotninn við Ísland, s.s. the General Bathymetric Chart of the Oceans í Mónakó, the National Geophysical Data Center ofl.

 

 

Framgangsmáti verkefnisins hefur verið:

 

1. Komist var að því hvar upplýsingar um íslenska landgrunnið er að finna, á hvaða formi og hvers eðlis þær eru á hverjum stað.

2. Lagðar hafa verið í einn gagnagrunn tölvutækar upplýsingar um hafdýpi sem eru í fórum umsækjenda (en það eru stærstu gagnasöfn um dýpi sem til eru hér á landi) og samið hefur verið eftir þörfum við aðra aðila um leyfi til að bæta þeirra upplýsingum við.

3.  Samhæfð voru gögn úr mismunandi grunnum m.t.t. mæliaðferða og gæða.

4.  Nú er verið að samkeyra og sannreyna gögnin með því að bera þau saman innbyrðis.

5.  Safnað hefur verið og bætt við grunninn upplýsingum um skipsflök og festur.

6.  Gengið verður frá aðgengilegum og notendavænum grunni, þar sem menn geta sótt upplýsingar um landgrunnið og unnið þær áfram eftir þörfum hvers og eins.

 

Hvað er nýnæmið?

 

Nýnæmið er í því fólgið að búinn hefur verið til gagnagrunnur, þar sem samankomnar eru á einum stað upplýsingar sem áður voru dreifðar í ýmsum gagnasöfnum. Þetta er því samnýting þekkingarauðlindar.

 

Með því að sameina og samræma landgrunnsupplýsingar frá  mismunandi innlendum aðilum s.s Landhelgisgæslunni, Siglingastofnun, Radíómiðun h.f., Orkustofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Háskóla Íslands, ofl.) og mörgum erlendum aðilum verður til mjög öflugur gagnagrunnur sem nýta má í ýmsum tilgangi.

 

Meginávinningurinn liggur í því að nýta sameiginlega þau gögn sem nú eru dreifð, - með sameiningu vex styrkur þeirra margfalt. Þau verða sannreynd með samanburði, einn grunnur býr yfir upplýsingum sem annan vantar, fyllt verður upp í gloppur og göt og komist að því um hvaða svæði vantar enn upplýsingar, þegar þessi sameinaði grunnur er tilbúinn.  Þetta er skynsamlegt að kanna nú, í ljósi þess að nýja hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er búið "multi-beam" skanna, sem ætlunin er að nýta m.a. til að kortleggja landslag á hafsbotni.

Töluverðar upplýsingar eru til um staðsetningu skipsflaka og annarra "festa" á hafsbotni við Íslandsstrendur. Landhelgisgæslan er að safna slíkum upplýsingum og sannreyna staðsetningu margra skipsflaka. Þá hefur Radiomiðun ehf safnað upplýsingum um festur og flök frá skipstjórum sem hafa MaxSea skipstjórnarbúnað. Svona fyrirbrigði á hafsbotni koma ekki fram á hefðbundnum sjókortum sem gerð eru með dýptarmælingum. Flök og festur geta stórskaðað veiðarfæri og valdið miklu fjárhagstjóni. Það er því mikill ávinningur fólginn í því að safna og gera aðgengilegar upplýsingar um staðsetningu þeirra.

 

Í ljósi þessa má færa  rök fyrir því að ávinningur verði allt í senn þekkingarlegur, hagrænn og umhverfislegur. Þekkingarlegur því sameinuð vitneskja margra er sterkari en sundruð þekkingarbrot; Umhverfislegur því kortlagning hafsbotnsins er mikilvægur þáttur í að skilja samspil landslags og lífríkis, og getur stuðlað að betri nýtingu auðlinda hafsins; og Fjárhagslegur því betri þekking á náttúrulegum aðstæðum neðansjávar getur stuðlað að  markvissari vinnubrögðum við veiðar, sem getur sparað tíma og eldsneyti og bætt beitingu veiðarfæra. Loks getur vitneskja um flök og festur komið í veg fyrir kostnaðarsaman skaða á veiðarfærum.