Landhelgisgæslan gerir samning um kortagerð af Malavívatni

Föstudagur 21. mars 2003.

Forstjóri Landhelgisgæslunnar og framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar undirrituðu í dag samstarfssamning við Mælingastofnun Malaví um aðstoð Landhelgisgæslunnar við dýptarmælingar og kortagerð af Malavívatni. Samningurinn gildir til ársloka 2004.

Starfsmenn sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar hafa unnið að verkefninu í tæp fjögur ár.  Upphaflega gerðu Þróunarsamvinnustofnun og Landhelgisgæslan samning um hluta verkefnisins árið 2000 eftir að gerð hafði verið forkönnun á umfangi þess.  Samningurinn sem gerður var í dag er um framhald verkefnisins.  Það er Þróunarsamvinnustofnun sem fjármagnar það. 

 

Forstjóri Landhelgisgæslunnar og forstöðumaður sjómælingasviðs stofnunarinnar eru nú staddir í Monkey Bay í Malaví í boði Þróunarsamvinnustofnunar þar sem samningurinn var undirritaður. Við sama tækifæri afhentu þeir yfirvöldum Malaví tvö kort af Malavívatni sem eru afrakstur vinnu undanfarinna ára.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands

Mynd Landhelgisgæslan/ Annað tveggja korta af Malavívatni sem sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar hefur unnið að.