Þyrla sótti slasaðan vélsleðamann

Laugardagur 8. mars 2003.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í dag vélsleðamann sem hafði orðið fyrir slysi við Þverbrekknamúla í Kjalhrauni. 

Um kl. 16:56 var haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskað eftir aðstoð vegna slasaðs manns við Þverbrekknamúla í Kjalhrauni.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út. 

Maðurinn hafði verið á ferðalagi með hópi vélsleðamanna og fallið af sleðanum og slasast. TF-SIF fór í loftið kl. 17:30 og var komin á slysstað kl. 18:22.   Þaðan var haldið til Reykjavíkur kl. 18:37 og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 19:11 þar sem hinum slasaða var komið undir læknis hendur. 

Vélsleðamennirnir voru vel búnir og höfðu meðferðis gervihnattasíma sem þeir gátu notað til að kalla eftir aðstoð.  Flug TF-SIF gekk ágætlega þrátt fyrir snjókomu og lélegt skyggni á slysstað.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands