Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar héldu kynningu fyrir Rauða krossinn

Nýlega hélt Landhelgisgæslan kynningu fyrir starfsfólk Rauða krossins um hættur sem stafa af sprengjum, t.a.m. jarðsprengjum, efna- og sýklavopnum og þær varúðarráðstafanir sem gera þarf vegna slíkrar hættu.  Kynningin var liður í fræðslu fyrir verðandi sjálfboðaliða á vegum Rauða krossins m.a. vegna yfirvofandi stríðs í Írak.

 

Kynningin stóð yfir í 3 klukkustundir og fólst m.a. í því að sýndar voru ýmsar tegundir sprengja og jarðsprengja og margvísleg verkfæri sem nota má til að verjast þeim.  Tilgangur kynningarinnar var að gera fólk meðvitaðara um hætturnar, kynna mismunandi tegundir sprengja, áhrif þeirra og varúðarráðstafanir vegna efna- og sýklavopna.

 

Í flestum tilfellum er sprengjusvæðum stjórnað af herjum, bæði á stríðstímum og eftir stríð, og ljóst er að fyrst og fremst er horft á hernaðarlegan tilgang og markmið við stjórnun þeirra.  Skipulögð hreinsun sprengjusvæða er yfirleitt framkvæmd af herjum en oft í samráði við Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir sem hafa það að markmiði að standa fyrir slíkri hreinsun.  Vandamál vegna jarðsprengja og annarra virkra sprengja vegna stríðsátaka eru umtalsverð.  Stór svæði í heiminum eru ónothæf til landbúnaðar og jafnvel á Íslandi eru 70-100 sprengjum, síðan í seinni heimstyrjöldinni og síðar, eytt á hverju ári.

 

Þrátt fyrir að Rauði krossinn hafi þá stefnu að setja starfsfólk sitt ekki vísvitandi í hættu, er óhjákvæmilegt að eftirstríðs hjálp fer fram undir kringumstæðum þar sem ýmis hætta er til staðar, m.a. virkar sprengjur sem skildar hafa verið eftir eða jarðsprengjur.  Það er von Landhelgisgæslunnar að kynning sem þessi geri starfsmenn Rauða krossins meðvitaðari um mögulegar hættur sem fylgja störfum þeirra og geri þá hæfari til að takast á við sjálfboðaliðastörf í þágu mannúðar.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar af starfsmönnum sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar á kynningunni.  Þar má sjá sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar ræða við starfsfólk Rauða krossins og einnig er mynd af sýnishornum af jarðsprengjum.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands