Útkall vegna slyss við Kárahnjúkagöng

Miðvikudagur 19. febrúar 2003.

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 3:25 og tilkynnti um slys við Kárahnjúkagöngin en þar hafði grjót hrunið yfir mann í gangamunnanum.  Þá var læknir á leiðinni með sjúkrabíl á slysstað.  Kl. 3:51 óskaði læknirinn eftir þyrlu þar sem vegir á svæðinu væru erfiðir yfirferðar og það gæti tekið hann eina og hálfa til tvær klukkustundir að komast á  leiðarenda 
 
Þyrluáhöfn var kölluð út kl. 3:55 og fór TF-LÍF í loftið kl. 5:12.  Eftir að læknir hafði komist til sjúklingsins með sjúkrabílnum var það sameiginlegt mat hans og læknis í áhöfn þyrlunnar að maðurinn væri ekki það mikið slasaður að þyrlan þyrfti að sækja hann.  Ákveðið var að flytja hann með sjúkrabíl til Egilsstaða.  TF-LÍF sneri til baka til Reykjavíkur kl. 6:23 og lenti 7:46. 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands