Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði vélsleðakonu við Landmannalaugar

Sunnudagur 16. febrúar 2003.
 
Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:36 vegna konu sem lent hafði í erfiðleikum á vélsleða skammt norður af Landmannalaugum.  Sleðinn hafði lent í krapa og var talið að hann væri að sökkva en konan stóð uppi á sleðanum.  Haft var samband við björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem voru staddar í 10 km. fjarlægð frá konunni en vegna aðstæðna á staðnum var ljóst að þær næðu ekki til hennar í tæka tíð.   Áhöfn TF-LÍF var þá kölluð út. 
 
Á Reykjavíkurflugvelli var mjög slæmt veður, allt að 25 m. á sek. en þyrlan fór í loftið kl. 13:32.  Er kl. var 14:43 tókst áhöfn þyrlunnar að ná konunni um borð og var hún heil á húfi.  Vegna veðurofsans voru efasemdir um að þyrlan næði að fljúga til Reykjavíkur og hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar því samband við Flugbjörgunarsveitina á Hellu og óskað eftir að hún hefði tiltæka stóra bíla til að skorða þyrluna af ef hún þyrfti að lenda þar. Það reyndist ekki nauðsynlegt og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 15:35.
 
Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands