Sjúkraflug þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, í oliuskipið Dundee

Mánudagur 10. febrúar 2003.

Síðastliðna nótt barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ósk um aðstoð frá Alþjóðlegu fjarlækningamiðstöðinni í Róm (International Radio Medical Centre) vegna slasaðs manns um borð í risaolíuskipinu Dundee sem áætlað var að yrði statt 60 sjómílur suður af Reykjavík um kl. 8 í morgun. Slasaði maðurinn er pólskur og var sagður tvírifbeinsbrotinn.  Þyrlulæknir í áhöfn TF-LÍF var gefið samband við skipið og var ekki talið að maðurinn væri í lífshættu. 

Eftir að veður hafði gengið nokkuð niður kl. 12:33 fór TF-LÍF í loftið og var komin að skipinu kl. 13:25.  Greiðlega gekk að ná hinum slasaða um borð í þyrluna þrátt fyrir erfið veðurskilyrði en við hífingu var skyggni um 3 km. og vindhraði 35 hnútar ( 19 m. á sek.).  TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 14:29 en þar beið sjúkrabíll eftir hinum slasaða og var hann fluttur á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi.

Olíuskipið Dundee er 156.408 brúttótonn, 332 metrar að lengd, 58 metrar að breidd og mesta djúprista þess er 28.1 metri.  Skipið er skráð í Monróvíu í Líberíu.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

 Mynd: Flugdeild LHG.  Risaolíuskipið Dundee.