Æfingar með þyrlum Varnarliðsins

Þriðjudagur 4. febrúar 2003.

Nýlega æfði þyrla Varnarliðsins björgun með varðskipinu Ægi en slíkar æfingar eru haldnar reglulega og þá að frumkvæði Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.  Þyrlur Varnarliðsins nota nú svipaðar aðferðir og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar við hífingar úr skipum. 

Árið 2001 fóru starfsmenn Landhelgisgæslunnar í kynningarheimsókn til Varnarliðsins og var þá meðal annars fjallað um þann mismun sem er á aðferðum þyrlusveitanna við björgun.  Þá hafði þyrlusveit Landhelgisgæslunnar ekki fengið nætursjónauka og vildi læra af þyrlusveit Varnarliðsins í þeim efnum.  Þyrlusveit Varnarliðsins vildi á móti kynna sér þá tækni sem Landhelgisgæslumenn nota við hífingar úr skipum, þ.e. hífing með tengilínu.

Nú hefur Landhelgisgæslan fengið nætursjónaukana og þyrlur Varnarliðsins farnar að nota svipað vinnulag og Landhelgisgæslan við hífingar. Gott samstarf er á milli Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins.

Sjá meðfylgjandi myndir af björgunaræfingu sem Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s Ægi tók.  Nánari upplýsingar um þær aðferðir sem notaðar eru við móttöku þyrlu um borð í skipum má finna á vef Landhelgisgæslunnar í dálkinum fræðsla.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd: Þyrla Varnarliðsins sveimar yfir varðskipinu Ægi.

Mynd: Börurnar komnar um borð í varðskipið.

Mynd:  Allt klárt fyrir hífingu.

Mynd: Tengilínan er notuð svo að þyrlan þurfi ekki að vera yfir skipinu allan tímann.  Bannað er að festa tengilínuna við skipið.

Mynd: Tengilínunni kastað frá borði.