Sjúkraflug TF-LÍF vegna umferðarslyss á sunnanverðu Snæfellsnesi

Sunnudagur 2. febrúar 2003.

Læknir í Borgarnesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 17:41 og tilkynnti um umferðarslys á þjóðveginum skammt frá bænum Hömluholti í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Tvær bifreiðar höfðu skollið saman og var talið að tveir væru alvarlega slasaðir en fjórir minna slasaðir.  Þá voru sjúkrabifreiðar á leið á slysstað frá Borgarnesi og Stykkishólmi. 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 18:13.  Þyrla Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli var einnig í viðbragðsstöðu. TF-LÍF lenti við afleggjarann að Laugagerðisskóla en vegna ókyrrðar í lofti var ekki hægt að lenda við slysstaðinn.  Sjúkrabílar komu síðan til móts við þyrluna með hina slösuðu.  Eftir að læknir í áhöfn TF-LÍF hafði kannað ástand þeirra var ákveðið að flytja eina konu með þyrlunni en aðrir voru fluttir með sjúkrabíl á næsta sjúkrahús eða fengu að fara heim eftir skoðun læknis. Konan sem flutt var með þyrlunni hafði verið ökumaður annars bílsins.  Að sögn læknis á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi var hún ekki talin alvarlega slösuð en var lögð inn á sjúkrahúsið til eftirlits.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Ólafsvík var mikil hálka og skafrenningur á slysstað.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands