Sjúkraflug TF-LÍF með veikan sjómann frá Rifi á Snæfellsnesi

Sunnudagur 26. janúar 2003. 

Haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í nótt kl. 3:36 vegna veiks skipverja um borð í línubátnum Valdimari GK-195 en báturinn var þá staddur 11 sjómílur suður af Malarrifi.  Gefið var samband við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og taldi hann nauðsynlegt að sækja skipverjann með þyrlu.

 

Áhöfn TF-LÍF var kölluð út kl. 3:51 og var þyrlan komin í loftið kl. 4:43.  Áhöfnin var búin nætursjónaukum en þeir komu ekki að gagni að þessu sinni þar sem birtuskilyrði voru of léleg svo hægt væri að nota þá.  Það skýrist af því að ekkert tungsljós var og skyggni slæmt vegna veðurs en á svæðinu var mikil rigning og vindur um 15 m. á sek.

 

Vegna ástands sjúklingsins, veðurs og mikils veltings var ekki talið rétt að hífa sjúklinginn um borð í þyrluna og var því ákveðið að báturinn sigldi til Ólafsvíkur þar sem þyrlan gæti sótt hann.  Þyrlan lenti stuttu síðar á Rifi og fóru stýrimaður og læknir úr áhöfninni til Ólafsvíkur og aðstoðuðu við að undirbúa sjúklinginn undir flutning. TF-LÍF fór frá Rifi kl. 8:30 og lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 9:24.  Þar beið sjúkrabifreið og flutti sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands