Kafarar Landhelgisgæslunnar aðstoða við leit að týndum sjómanni

Miðvikudagur 22. janúar 2003.

Landhelgisgæslan var beðin um aðstoð kl. 16 í gær vegna leitar að skipverja af loðnuskipinu Jónu Eðvalds SF-20 sem gerður er út frá Hornafirði.  Landhelgisgæslan sendi varðskip til Seyðisfjarðar og hófu þrír kafarar varðskipsins leit í höfninni í samráði við lögregluna á staðnum.  Köfun var hætt kl. 21 vegna myrkurs og slæms skyggnis í sjó.  Í morgun hófu kafarar leit að nýju ásamt einum kafara frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.  Aðstæður eru ekki góðar þar sem mikið dýpi er í höfninni og leitarsvæði stórt.  Kafarar Landhelgisgæslunnar hættu leit í höfninni kl. 17 en hún hefur engan árangur borið.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Ljósmynd: SA 6/1998. Loðnuskipið Jóna Eðvalds.  Birt með leyfi sjávarútvegsvefs Skerplu.