Sjúkraflug til Snæfellsness í morgun

Fimmtudagur 16. janúar 2003.

Læknir á Ólafsvík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í morgun og óskaði eftir aðstoð vegna alvarlega veiks manns.  Læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar taldi í samráði við lækninn á Ólafsvík að nauðsynlegt væri að flytja manninn með flugi til Reykjavíkur og leggja hann inn á sjúkrahús.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF fór í loftið kl. 9:30 og var stefnan tekin á Rif en gert var ráð fyrir að lenda þar kl. 10. Á Rifi var snjókoma og skafrenningur, hitastig -4°C og vindhraði 14 metrar á sekúndu. Vegna veðurs og slæms skyggnis tókst ekki í fyrstu tilraun að lenda þyrlunni á flugvellinum á Rifi en gerð var önnur tilraun og lenti þyrlan þar kl. 10:30. Þyrlan fór frá Rifi kl. 10:49 og lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 11:34 þar sem sjúkrabifreið beið þess að flytja sjúklinginn á Landspítala Háskólasjúkrahús.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd af TF-SIF: Baldur Sveinsson