Fyrrverandi skipherrar Landhelgisgæslunnar prófa nýjan stýrisbúnað varðskipa

Fimmtudagur 16. janúar 2003

Forstjóri Landhelgisgæslunnar bauð nýlega fyrrum skipherrum Landhelgisgæslunnar að prófa nýjan stýrisbúnað varðskipanna.  Var farið í stutta ferð um Kollafjörðinn á varðskipinu Ægi áður en það lagði af stað í lengri ferð.

Tilgangur ferðarinnar var að gefa þeim kost á að kynna sér breytingar á stjórnhæfni varðskipanna Ægis og Týs eftir að tvö ný stýri voru sett á þau í Póllandi árið 2001. Breytingin var gerð eftir að Rannsóknarnefnd sjóslysa benti á í nefndaráliti árið 1997 ,,að varðskip eins og Ægir sé ekki með fullnægjandi stjórnbúnað til siglingar við erfiðar aðstæður til björgunar þar sem um er að ræða eitt stýrisblað á milli tveggja skrúfa.  Tveggja skrúfu skip þurfi að vera búið tveimur stýrisblöðum, stýrisblaði fyrir aftan hvora skrúfu.”

Það kom fram í máli Guðmundar Kjærnested að vissulega hefðu stýrin góða eiginleika en hafði áhyggjur af því að stýrin væru í hættu ef skipin lentu í hafís. Eðlilega þarf að hafa það í huga þegar siglt er við slíkar aðstæður.

Starfandi skipherrar Landhelgisgæslunnar eru á einu máli um að orðið hafi gjörbreyting á stjórnhæfni skipanna til batnaðar, enn meiri en tilraunasiglingar í tanki gáfu til kynna.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd: Halldór B. Nellett skipherra á varðskipinu Ægi ásamt fyrrverandi skipherrum en þeir eru Ólafur Valur Sigurðsson, Sigurður Þ. Árnason, Þröstur Sigtryggsson og Guðmundur Kjærnested.