Sprengjuhleðsla úr tundurdufli fannst í veiðarfærum kúfiskveiðibátsins Fossár

Þriðjudagur 14. janúar 2003.

Skipstjóri kúfiskveiðibátsins Fossár ÞH-362 fann torkennilegan hlut í veiðarfærum sínum er hann var að kúfiskveiðum inni á Vöðlavík seinnipart sl. sunnudags.  Þar sem hann grunaði að um tundurdufl væri að ræða hafði hann samband við Landhelgisgæsluna. 

Eftir að skipstjórinn hafði lýst hlutnum fyrir sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar kom í ljós að um var að ræða 135 kílóa hleðslu úr bresku tundurdufli frá seinni heimstyrjöldinni.  Breski sjóherinn lagði þúsundir tundurdufla í hafið suðaustur af landinu á styrjaldarárunum.  Það var gert til  að hindra þýsk skip og kafbáta í að komast inn á Norður-Atlantshaf sjóleiðina milli Íslands og Færeyja og ráðast þar á kaup- og herskip bandamanna.

Tundurduflið var án hvellhettu og forsprengju en var þó í tiltölulega góðu ástandi.  Eftir rannsókn kom í ljós að tundurduflið innihélt TNT en það helst algerlega virkt þrátt fyrir að hafa verið meira en 60 ár á hafsbotni.

Sprengjuhleðslan var flutt frá Fossá yfir í varðskip Landhelgisgæslunnar á sunnudagskvöld og þá gat Fossá haldið áfram ferð sinni.  Varðskipið lagðist við akkeri fyrir utan Neskaupstað aðfaranótt mánudags og beið þar sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar.  Lögreglan aðstoðaði þá í gær við að flytja duflið á eyðingarstað sem lögreglan lokaði á meðan á aðgerðum stóð.  Vegna aðstæðna og nálægðar við byggð var duflið brennt en ekki sprengt.  Sú aðgerð er ekki hættulaus og tekur mislangan tíma eftir því hvaða sprengiefni á í hlut. Í þetta skiptið brann hleðslan á tæpum fimm tímum og lögreglan aflýsti hættuástandi á svæðinu kl. 17:30.  Sjá mynd af sprengjuhleðslunni sem fannst í veiðarfærum Fossár.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands