Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Austurlands þar sem sjálfvirkt fjareftirlit var viðurkennt sem sönnunargagn

Fimmtudagur 12. desember 2002.

 

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Austurlands í máli ákæruvaldsins gegn norska loðnuskipstjóranum Lovde Gjendemsjö sem kveðinn var upp 12. nóvember 2001. Fyrir Hæstarétti undi ákærði sakfellingu samkvæmt héraðsdómi en krafðist þess að refsing yrði lækkuð þar sem hann hélt því fram að brot hafi verið framin af gáleysi en ekki ásetningi.

 

Landhelgisgæslan telur að hér sé um tímamótadóm að ræða. Þetta er í fyrsta skipti sem skipstjóri er sakfelldur án þess að hafa verið staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi og styrkir það Landhelgisgæsluna varðandi áframhaldandi samvinnu við erlend ríki um fiskveiðieftirlit með sjálfvirku fjareftirlitskerfi.

 

Upphaf málsins var að Lovde veiddi á skipi sínu Inger Hildur 600 tonn af loðnu norðvestur af Horni og sagðist hafa veitt hana innan grænlensku fiskveiðilögsögunnar. Benti hann á afladagbók skipsins sem sýndi staðsetningar innan grænlensku lögsögunnar. Reyndar hafði hann skráð eina staðsetningu innan íslensku lögsögunnar í afladagbókina en hélt því fram að sú staðsetning hafi verið skráð fyrir misgáning.  Hann hafi raunverulega verið staddur innan grænlensku lögsögunnar á þeim tíma.  Landhelgisgæslan taldi hins vegar, eftir að varðskipið Ægir stöðvaði Inger Hildur á athugunarstað austur af landinu, og staðsetningar voru bornar saman við gögn úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi, að allur aflinn hafi verið veiddur innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Á sama athugunarstað komu tvö önnur norsk loðnuveiðiskip, Torson og Tromsöyebuen, og sýndu athuganir varðskipsmanna í samráði við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að sama máli gegndi um þau.

 

Varðskipið Ægir færði loðnuskipin þrjú til Seyðisfjarðar þar sem sýslumaðurinn á Seyðisfirði gaf út ákæru á hendur skipstjórunum.  Var hver um sig dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð kr. 2.500.000 til Landhelgisssjóðs Íslands og til upptöku andvirðis ólögmæts afla í Héraðsdómi Austurlands 12. nóvember 2001. Afli Inger Hildur var metinn kr. 4.500.000, afli Torson kr. 7.125.000 og afli Tromsoyebuen kr. 6.375.000.  Einnig var hver um sig dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar að fjárhæð kr. 150.000. Aðeins einn skipstjóranna áfrýjaði til Hæstaréttar en hinir tveir náðu ekki að áfrýja innan lögboðins frests.

 

Í héraðsdómi sem Hæstiréttur staðfesti var sérstaklega fjallað um gögn úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi sem sönnunargögn.  Þar segir: 

 

,,Hafa verður í huga í máli þessu, að ákærði hefur ekki verið staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi, heldur byggist ákæra á gögnum sem fengin eru frá hinu sjálfvirka fjareftirlitskerfi."

 

Ljóst er að samvinna Landhelgisgæslunnar og erlendra stjórnstöðva um sjálfvirkt fjareftirlit gerir fiskveiðieftirlit Landhelgisgæslunnar markvissara að því leyti að auðveldara verður að hafa uppi á þeim skipum sem fara inn í fiskveiðilögsögu Íslands án þess að senda lögboðnar tilkynningar um staðsetningu og afla.  Hins vegar kemur sjálfvirka fjareftirlitskerfið ekki í staðinn fyrir eftirlit varðskipa því að nauðsynlegt er að varðskipin séu til staðar og elti brotlegu skipin uppi og færi þau til hafnar.

 

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands

 


Mynd Landhelgisgæslan: Ægir á siglingu.