Sjúkraflug TF-LÍF til Hafnar í Hornafirði

Fimmtudagur 28. nóvember 2002.

Í dag kl. 17:09 hringdi læknir frá Höfn í Hornafirði í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði aðstoðar vegna veiks manns.  Flugvöllurinn á Höfn var lokaður vegna mikils hliðarvinds og því ekki hægt að flytja hann með sjúkraflugvél. Stjórnstöð gaf lækninum samband við lækni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og kl. 17:48 eftir að læknar höfðu borið saman bækur sínar var afráðið að sækja sjúklinginn með þyrlu. 

Áhöfn TF-LÍF var stödd í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli vegna fyrirhugaðs æfingaflugs með nætursjónauka og gat því brugðist skjótt við.  TF-LÍF fór í loftið kl. 18:04 og var lent á Höfn kl. 20:13 en flugið tók rúma tvo tíma vegna mikils mótvinds.  Þyrlan fór í loftið frá Höfn kl. 20:48 og lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 22:21 þar sem sjúkrabifreið beið sjúklingsins og flutti hann á sjúkrahús.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands