Nætursjónaukar notaðir í fyrsta skipti við sjúkraflug Landhelgisgæslunnar

Fimmtudagur 28. nóvember 2002.

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar notaði nætursjónauka við störf sín í fyrsta skipti í gærkvöldi er farið var í sjúkraflug til Vestmannaeyja. Undanfarið hefur þyrluáhöfnin verið að æfa notkun sjónaukanna á kvöldæfingum en þetta er í fyrsta skipti sem sjónaukarnir eru notaðir í sjúkraflugi.

Neyðarlínan hafði samband við Landhelgisgæsluna um kl. 17 í gær vegna konu í barnsnauð í Vestmannaeyjum sem nauðsynlega þurfti að komast á sjúkrahús í Reykjavík. Sjúkraflugvél var ekki tiltæk í Vestmannaeyjum og ófært fyrir flugvél að lenda þar vegna veðurs. Þyrluáhöfn var þegar kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 17:33.  Þyrlan kom til Vestmannaeyja kl. 18:15 og fór þaðan aftur kl. 18:35.  Lent var við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 19:11 en þaðan var konan flutt með sjúkrabifreið á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. 

Nætursjónaukarnir nýttust mjög vel í fluginu og er áhöfnin sammála um að þeir auki mjög öryggi í flugi að kvöld- og næturlagi.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands