Björgunaræfing við Miðbakkann og varðskip til sýnis í tilefni öryggisviku sjómanna

Laugardagur 28. september 2002.

Það var mikið um dýrðir við Miðbakkann á Reykjavíkurhöfn um eittleytið í dag en þá hófst björgunaræfing þar sem áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, æfði björgun úr sjó.  Voru menn bæði hífðir úr björgunarskipinu ÁSGRÍMI sem er í eigu slysavarnarfélagsins Landsbjargar og einnig úr sjónum.  Björgunaræfingin setti svip sinn á miðbæinn í dag.

Á sama tíma var varðskipið ÆGIR til sýnis við Miðbakkann og kom talsverður fjöldi gesta um borð.  Skólaskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Sæbjörg, var einnig við Miðbakkann og bauð Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík kökur og kaffi til sölu um borð. Var mál manna að sá viðurgjörningur væri betri en fínasta fermingarveisla.  Er björgunaræfingunni lauk mátti sjá skip danska sjóhersins, Vædderen, sigla úr Reykjavíkurhöfn.

Öryggisvika sjómanna lýkur með ráðstefnu um öryggismál sjómanna fimmtudaginn 3. október.  Ráðstefnan verður haldin að Borgartúni 6, 4. hæð og er aðgangur ókeypis.  Enn er hægt að skrá sig til þáttöku hjá samgönguráðuneytinu í síma 545-8200 eða á vef samgönguráðuneytisins fyrir 1. október nk. 

Sjá meðfylgjandi myndir sem Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s ÆGI tók á Miðbakkanum í dag.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands