Samningur um lögsögumörk milli Íslands og Færeyja í höfn - Landhelgisgæslan sér um tæknilega endurskoðun grunnlínupunkta

Miðvikudagur 25. september 2002.

Í dag var gengið frá samkomulagi milli Íslands og Færeyja um lögsögumörk á umdeildu hafsvæði milli landanna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Anfinn Dallsberg forsætisráðherra Færeyja undirrituðu samkomulagið í Þórshöfn í Færeyjum.

Deilt hafði verið um þá ákvörðun Íslendinga að nota Hvalbak sem viðmiðunarpunkt við afmörkun miðlínu á hafsvæðinu milli Ísland og Færeyja þegar Íslendingar færðu fiskveiðilögsöguna í 200 sjómílur árið 1975. Gerðu Dönsk stjórnvöld fyrirvara við þá ákvörðun Íslendinga á sínum tíma og viðurkenndu ekki Hvalbak sem grunnlínupunkt. 

Samkomulagið gerir ráð fyrir að lögsögumörk á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja, þar sem fjarlægð milli grunnlína er minni en 400 sjómílur, afmarkist af miðlínu.  Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er sagt frá hvernig umdeilda svæðinu er skipt en það er samtals 3.650 km² að stærð:

,,Í samkomulaginu felst að nyrðri hluti umdeilda svæðisins, sem liggur norðan 63° 30´ og nemur um tveimur þriðju hlutum af svæðinu í heild, skiptist þannig milli aðila að Ísland fær 60% í sinn hlut en Færeyjar 40%. Syðsti hluti umdeilda svæðisins, sem liggur sunnan 63° 30´ og nemur um þriðjungi af svæðinu í heild, skiptist hins vegar jafnt á milli aðila. Vegna sérstakra aðstæðna á syðsta hluta svæðisins var um það samið að aðilar heimili fiskiskipum hvors annars veiðar á sínum hluta svæðisins og verður því í raun um sameiginlegt nýtingarsvæði landanna tveggja að ræða. Á þessum hluta svæðisins er að finna rækjuhóla sem hvorki er að finna í næsta nágrenni til vesturs né austurs og myndi það gera fiskiskipum beggja aðila erfitt fyrir að stunda rækjuveiðarnar ef aðgangur þeirra að svæðinu yrði takmarkaður.

Stefnt er að því að formlegur afmörkunarsamningur, sem muni ná til allrar lögsögulínunnar milli landanna, verði gerður haustið 2003 að lokinni tæknilegri endurskoðun á grunnlínupunktum hvors lands um sig."

Því er lýst yfir í í 2 lið samkomulagsins að því sé ætlað að endurspegla hversu góðir nágrannar og vinir Íslendingar og Færeyingar eru.  Formlegur afmörkunarsamningur verður að öllum líkindum gerður á næsta ári þegar tæknilegri endurskoðun á grunnlínupunktum verður lokið. 

Það eru Sjómælingar Íslands, sem er deild innan Landhelgisgæslu Íslands, sem annast tæknilega endurskoðun grunnlínupunkta.  Stefnt er að því að ljúka henni næsta sumar en þá er ætlunin að endurskoða grunnlínupunkta frá Langanesi að Surtsey.

Sjá meðfylgjandi mynd af skiptingu hins umdeilda hafsvæðis.  Samninginn í heild sinni er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands