Rangfærslur um leit að ítölskum ferðamanni leiðréttar

Þriðjudagur 20. ágúst 2002.

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað mikið um umfangsmikla leit að ítölskum ferðamanni. Talið er að hann hafi farið út á Látraströnd en það hefur ekki verið hægt að sýna fram á það með óyggjandi hætti. 

Ýmis konar rangfærslur um Landhelgisgæsluna hafa komið fram í þeirri umfjöllun sem nauðsynlegt er að leiðrétta.  Rétt er að Landhelgisgæslunni barst beiðni 15. ágúst sl. um að aðstoða við leitina með þyrlu. Ekki reyndist hægt að verða við beiðninni þegar í stað vegna veðurs. TF-SIF var send á leitarsvæðið laugardagsmorguninn 17. ágúst sl. eftir að veður hafði gengið niður og fór yfir allt það leitarsvæði sem henni  var ætlað að kanna.  Að sögn áhafnar þyrlunnar var það svæði eins vel leitað og mögulegt er úr þyrlu. 

Er þyrlan var á leið til Akureyrar til að taka eldsneyti eftir að leit var lokið, kom í ljós sprunga á ytra byrði í framrúðu þyrlunnar. Það er því rangt að leit hafi verið hætt vegna bilunar. Sama kvöld var aftur óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Ekki var talið ásættanlegt að senda þyrluna með ærnum tilkostnaði á svæðið á ný þar sem svo margir óvissuþættir voru í málinu en það var skýrt tekið fram af hálfu Landhelgisgæslunnar að ef nýjar vísbendingar kæmu fram í málinu yrði það endurskoðað af hálfu stofnunarinnar.

Í fréttum var einnig ranglega haft eftir yfirmanni gæsluframkvæmda að lögregluyfirvöld gætu leigt þyrlu til leitarinnar en það rétta er að hann benti á að hægt væri að leigja flugvél frá Akureyri til leitarinnar og það væri mun kostnaðarminna. 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands