Kvenfélagið Aldan gefur eina milljón til kaupa á nætursjónaukum

Kvenfélagið Aldan hefur gefið eina milljón króna til kaupa á nætursjónaukum fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar. Til verkefnisins hafa eftirtaldir gefið auk kvenfélagsins Öldunnar: Þyrlusjóður Stýrimannaskólans í Reykjavík, fjórtán milljónir, Sjóvá-Almennar hf.  eina milljón, Rauði krossinn eina milljón og fimmtíu þúsund og dómsmálaráðuneytið hefur lagt fram sjö milljónir króna. Samtals hafa því safnast tuttugu og fjórar milljónir og fimmtíu þúsund en áætlaður heildarkostnaður er 36 milljónir.  Stefnt er að því að taka nætursjónaukana í notkun næsta haust.


Nætursjónaukarnir munu verða notaðir af þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar við leit og björgun á sjó og landi.  Nætursjónaukarnir gera það að verkum að flugmenn og aðrir í áhöfnum vélanna geta séð í myrkri.  Það eykur notkunarmöguleika þyrlanna til muna og veldur því að flugmenn geta flogið þeim að nóttu til við aðstæður sem ekki var áður kleyft að athafna sig við.  Sem dæmi má nefna að björgunarflug í fjalllendi á óupplýstum svæðum hefur hingað til verið nánast óframkvæmanlegt.  Ljóst er að tæki þessi valda gjörbyltingu við leit og björgun.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands