Slösuð kona á Esjunni sótt með þyrlu

Laugardagur 8. júní 2002.

Um kl. 13:44 hafði Neyðarlínan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna konu sem hafði slasast í hlíðum Esjunnar. Konan hafði verið ásamt hópi fólks í fjallgöngu. Slysið vildi þannig til að konan var að fara yfir skafl, missti fótanna, rann niður talsverðan bratta og féll niður í grýtt fjalllendið. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fór í loftið kl. 14:09 og lenti eins nálægt slysstaðnum og mögulegt var um kl. 14:20. Talsverð ókyrrð var í lofti og erfitt að athafna sig. Þar fóru læknir, sigmaður og lögreglumaður frá borði og gengu niður að slysstaðnum. Þangað komu einnig björgunarmenn úr neyðarsveit slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Þyrlan fór í loftið að nýju og lenti fyrir neðan slysstaðinn. Bjuggu björgunarmenn um hina slösuðu á börum og gengu með hana niður brattann að þyrlunni. Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi um kl. 15:37.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi