Merki Landhelgisgæslu Íslands

 

Merki Landhelgisgæslu Íslands.

Landhelgisgæslan tók 1. september 2001 í notkun nýtt merki sem er ankeri og landvættirnir. Ankeri hefur verið einkenni Landhelgisgæslunnar í mörg ár.

Í Heimskringlu segir svo um landvættina sem tóku á móti fjölkunnugum manni er Haraldur Gormsson Danakonungur sendi til Íslands:

Haraldr konungr bauð kunngum manni at fara í hamförum til Íslands ok freista, hvat hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, fór hann vestr fyrir norðan landit. Hann sá, at fjöll öll ok hólar váru fullir af landvéttum, sumt stórt, en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vápnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn ok ætlaði á land at ganga. Þá fór ofan eptir dalnum dreki mikill, ok fylgðu honum margir ormar, pöddur ok eðlur ok blésu eitri á hann. En hann lagðisk á brot ok vestr fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eptir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svá mikill, at vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, ok fjölði annarra fugla, bæði stórir ok smáir. Braut fór hann þaðan ok vestr um landit ok svá suðr á Breiðarfjörð ok stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungr mikill ok óð á sæinn út ok tók at gella ógurliga. Fjölði landvétta fylgði honum. Brot fór hann þaðan ok suðr um Reykjanes ok vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi ok hafði járnstaf í hendi, ok bar höfuðit hæra en fjöllin, ok margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austr með endlöngu landi - var þá ekki nema sandar ok øræfi ok brim mikit fyrir útan, en haf svá mikit millim landanna, segir hann, at ekki er þar fært langskipum.  

Merkið er í fánalitunum. Grunnurinn er hvítur. Rammi merkisins og landvættirnir eru bláir og ankerið er rautt. Líta má á ankerið sem kristið tákn og er rauði liturinn vel við hæfi.


Hugmyndin að merkinu kemur frá Landhelgisgæslu Íslands en Gísli B. Björsson teiknari  sá um hönnun og útfærslu þess. Eimskipafélag Íslands hf. veitti Landhelgisgæslunni styrk vegna merkisins í tilefni afmælis stofnunarinnar og vegna góðs samstarfs.


Landhelgisgæslan hefur á sama tíma tekið upp kjörorðin: Föðurland vort hálft er hafið sem eru úr ljóðinu Líknargjafinn þjáðra þjóða eftir Jón Magnússon.
Jón Magnússon var fæddur 17. ágúst árið 1896 í Fossakoti í Andakíl, Borg, d. 1944. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1916 og nam beykisiðn. Jón vann við iðn sína um  tíma en lengst af rak hann Húsgagnaverslun Reykjavíkur.


Framangreint ljóð Jóns er úr ljóðasafninu Bláskógar sem kom út árið 1945:


Líknargjafinn þjáðra þjóða

Líknargjafinn þjáðra þjóða,
þú, sem kyrrðir vind og sjó,
ættjörð vor í ystu höfum
undir þinni miskunn bjó.
Vertu með oss, vaktu hjá oss,
veittu styrk og hugar-ró.
Þegar boðinn heljar hækkar,
herra, lægðu vind og sjó.

Föðurland vort hálft er hafið
helgað margri feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Yfir logn og banabylgju
bjarmi skín af drottins náð.
Föðurland vort hálft er hafið
hetjulífi og dauða skráð.

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll.
Þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll.
Vertu ljós og leiðarstjarna,
lægðu storm og boðaföll,
líknargjafinn þjáðra þjóða,
þegar lokast sundin öll.

Drottinn, þinnar ástar óður
endurhljómi um jörð og höf.
Breiddu þína blessun yfir
blóma lífs og þögla gröf.
Vígi og skjöldur vertu þeim, sem
vinda upp hin hvítu tröf.
Drottinn, þinnar ástar óður
endurhljómi um jörð og höf.