Störf sjálfboðaliða í brennidepli á 112 daginn

  • _DSC1115

112 dagurinn verður haldinn á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum um allt land sunnudaginn 11. febrúar næstkomandi. Að þessu sinni verður dagurinn helgaður margvíslegum störfum sjálfboðaliða að forvörnum, leit og björgun, almannavörnum og neyðaraðstoð. Megináhersla verður lögð á að kynna starf sjálfboðaliðasamtakanna og mikilvægi þess.

_DSC1087
Mynd: Odd Stefan.

Markmiðið með 112 deginum er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum.

Föstudaginn 9. febrúar verður ljósmyndasýningin Útkall 2006 opnuð en fyrri sýningar með myndum af viðbragðsaðilum að störfum hafa vakið mikla athygli. Um hádegisbil sunnudaginn 11. febrúar, á 112 daginn, fylkja viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu og víðar liði í bíla- og tækjalest í tilefni dagsins. Að því búnu verða tækin til sýnis og sjálfboðaliðasamtökin, Rauði kross Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg, standa sameiginlega að dagskrá til að kynna starfsemi sína og verkefni sjálfboðaliða í öryggis- og almannavarnakerfi landsins.

Við það tækifæri mun Rauði kross Íslands tilkynna um val á skyndihjálparmanni ársins og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna afhendir verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2006.

Samstarfsaðilar 112 dagsins eru: 112, Barnaverndarstofa, Brunamálastofnun, Flugstoðir, Landhelgisgæslan, Landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Rauði kross Íslands, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Garðar H. Guðjónsson kynningarráðgjafi stýrir verkefninu og er unnt að leita nánari upplýsinga um 112 daginn 2007 með því að stenda tölvupóst á gaji@mmedia.is.