Tveir menn létust í sjóslysi í nótt

14. mars 2007.

Björg Hauks ÍS-127, 10 tonna plastbátur, var í gær að línuveiðum 12 sjómílur norðvestur af Sauðanesi og hélt af stað heim á leið um kl. 19. Hann hvarf út af skjá sjálfvirku tilkynningarskyldunnar (STK) kl. 20:43. Skömmu áður höfðu starfsmenn vaktstöðvar siglinga haft samband við bátinn þar sem þeir sáu að hann var orðinn einn eftir á miðunum.  Þeir vissu að brátt hyrfi hann út af skjánum þar sem báturinn var að fara inn á skuggasvæði. Þá var allt í lagi um borð.

Starfsmenn vaktstöðvar siglinga reyndu margoft aftur að ná sambandi við bátinn bæði í gegnum talstöð og síma.  Ekki var svarað í talstöð og síminn á tali.

Kl. 21:12, birtist Björg Hauks aftur í sjálfvirka tilkynningarkerfinu og var inni næsta klukkutímann, eða til kl. 22:16. Sigling virtist eðlileg. Kerfið lét svo vita kl. 22:24 að báturinn væri horfinn út úr tilkynningarskyldukerfinu.

Í framhaldi af því var með öllum ráðum reynt að hafa samband við bátinn og nærstaddir bátar látnir vita og óskað eftir aðstoð við leit.  Farþegabáturinn Sædís frá Bolungarvík fór út til leitar þrátt fyrir vonskuveður um kl. 23:30 og kom að björgunarbáti Bjargar Hauks laust fyrir miðnættið. Skömmu síðar hafði áhöfn Sædísar samband við vaktstöð siglinga og lét vita að engir menn væru um borð í gúmmíbátnum.

Í framhaldi af þessu var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út en kl. 00:23 var tilkynnt að Björg Hauks hefði fundist á hvolfi með stefnið uppúr og að björgunarbáturinn héngi utan á honum.  Síðar um nóttina fundust lík skipverjanna tveggja. 

Tildrög slyssins eru ókunn og rannsaka lögreglan, rannsóknarnefnd sjóslysa og Landhelgisgæslan málið.


Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.