Útkall um helgina - Þyrlan Líf og flugvélin Syn í björgunarflugi djúpt suður af landinu

  • TF-LIF-140604
  • Sjúkraflug Lífar og Synjar í Guðmund VE 250307
  • Sjúkraflug Lífar og Synjar í Guðmund VE 250307
  • Sjúkraflug Lífar og Synjar í Guðmund VE 250307
  • Sjúkraflug Lífar og Synjar í Guðmund VE 250307

Mánudagur 26. mars 2007.

Áhöfn kolmunnaskipsins Guðmundar VE hafði samband við Vaktstöð siglinga/stjórnstöð LHG (VSS) um hálffjögurleytið laugardaginn 24. mars og óskaði eftir aðstoð vegna slasaðs manns um borð. Skipið var þá statt um 380 sjómílur suður af Íslandi. Haft var samband við björgunarmiðstöðina í Dublin og björgunarmiðstöðina í Stornoway og að höfðu samráði við þær var ákveðið að snúa skipinu til Íslands og láta þyrlu Landhelgisgæslunnar sækja sjúklinginn.

Er hjálparbeiðnin barst var skipið statt langt utan flugdrægis þyrlna, bæði frá Íslandi og Bretlandi. Björgunarþyrlan Líf fór frá Reykjavík kl. 03:03 aðfararnótt sunnudagsins er skipið var komið nær landinu. Líf millilenti í Vestmannaeyjum kl. 03:37 til eldneytistöku og hélt síðan áfram kl. 04:04. Á sama tíma fór Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, Sýn, frá Reykjavík til fylgdar. Ferð vélanna gekk vel og var sjúklingurinn kominn um borð í björgunarþyrluna Líf kl. 06:37. Þá var skipið statt um 200 sjómílur frá Vestmannaeyjum. Ástand sjúklings var stöðugt og var flogið með hann beint til Reykjavíkur.

Syn var send til fylgdar Líf þar sem um mjög langt flug var að ræða meðal annars til þess að halda uppi fjarskiptum við Vaktstöð siglinga og til öryggis fyrir áhöfn þyrlunnar.

Syn lenti í Reykjavík kl. 07:13 og Líf kl. 07:20.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að setja eldsneytistökubúnað í varðskipin Tý og Ægi. Þessi búnaður er til þess að þyrlur Landhelgisgæslunnar geti tekið eldsneyti úr varðskipunum. Það er gert með þeim hætti að þær fara í hang yfir varðskipunum, hífa til sín slöngu og varðskipið dælir eldsneyti á þyrluna. Búist er við því að þessi búnaður verði tilbúinn í maímánuði um borð í Tý og í ágúst um borð í Ægi. Með þessum búnaði stóreykst langdrægi þyrlnanna að því tilskildu að varðskip sé á viðkomandi svæði, en í því sambandi má nefna að varðskip getur ferðast tæpar 100 sjómílur á rúmum 5 klst. í góðu leiði.

Halldór Benóný Nellett
framkvæmdastjóri aðgerðasviðs

Sjúkraflug Lífar og Synjar í Guðmund VE 250307
Verið að hífa hinn slasaða um borð í Líf. Mynd: Jón Erlendsson flugvirki.

TF-SYN
Úr myndasafni. Syn í fylgdarflugi með björgunarþyrlunni Líf.