Æfing með danska sjóhernum

  • IMG_8721

Miðvikudagur 18. apríl 2007.

Landhelgisgæslan hefur löngum átt gott samstarf við danska sjóherinn. Stundum eru haldnar sameiginlegar æfingar þegar dönsku eftirlitsskipin eru innan íslenskrar lögsögu. Hafa þyrlur og skip danska sjóhersins margoft komið til bjargar þegar Landhelgisgæslan hefur kallað þau til aðstoðar.

Í gær voru æfðar brunavarnir um borð í skipunum. Fyrir hádegið var settur á svið eldsvoði um borð í eftirlitsskipi danska sjóhersins, Triton. Menn frá varðskipinu Ægi komu um borð í Triton slökktu eldinn og björguðu skipverjum sem höfðu orðið innlyksa í vélarrúminu.  Að því loknu tók varðskipið Ægir Triton í tog.

Dæmið snerist við eftir hádegið en þá hafði orðið eldsvoði um borð í varðskipinu Ægi og skipverjar af Triton komu til bjargar.  Einnig sá þyrla Triton um sjúkraflutninga.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, Eir, flaug síðan eftir hádegið yfir skipin og tók nokkrar aðflugs- og lendingaræfingar á eftirlitsskipinu Triton.

Landhelgisgæslan og danski sjóherinn hafa með sér samstarfssamning um leit og björgun og hefur hann m.a. að geyma ákvæði um gagnkvæma upplýsingamiðlun og sameiginlegar æfingar. 

Meðfylgjandi myndir tók Viggó Sigurðsson stýrimaður/sigmaður úr björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, Eir, er þyrlan æfði aðflug og lendingar á Triton.  Einnig eru myndir Jóns Páls Ásgeirssonar yfirstýrimanns á Ægi frá æfingunni komnar inn í myndasafnið á heimasíðunni.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Brunaæfing Tritons og Ægis
Triton á siglingu. Myndin er tekin úr björgunarþyrlunni Eir.

Brunaæfing Ægir Eir og Triton áhöfnin á Eir
Frá vinstri: Læknirinn á Triton, Helgi Rafnsson flugvirki/spilmaður, Viggó Sigurðsson stýrimaður/spilmaður, Gísli Haraldsson læknir, Björn Brekkan Björnsson flugstjóri, Lárus Helgi Kristjánsson þyrluflugmaður og flugstjórinn á björgunarþyrlu Tritons.

Brunaæfing Ægir Eir og Triton Helgi Rafns flugvirki og Gísli Haralds læknir

Helgi Rafnsson flugvirki/spilmaður og Gísli Haraldsson læknir í áhöfn björgunarþyrlunnar Eirar.