„Ósiglandi í þessari brælu“

Nokkur flutningaskip á sjó umhverfis Ísland um jólaleytið

  • Vaktstöð siglinga / stjórnstöðin 2007

Fá skip hafa verið á sjó undanfarna daga, bæði vegna hátíðanna og verkfalls sjómanna. Ekki hefur bætt úr skák að illviðrasamt hefur verið á hafinu umhverfis Ísland. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar liðsinnti nokkrum flutningaskipum og fylgdist með öðrum um jólin. Þannig barst stjórnstöð símtal frá íslensku fraktskipi norður af Hjaltlandseyjum aðfaranótt aðfangadags vegna háseta sem hafði dottið og hlotið ljótt sár. Læknir á þyrlu Landhelgisgæslunnar ræddi við skipstjórann í síma og gat út frá ljósmyndum af áverkanum veitt ráðleggingar um meðferð til bráðabirgða, eða þar til skipið kæmi til hafnar á Englandi á jóladag.

Að morgni aðfangadags hafði skipstjóri á Wilson Dale, litlu flutningaskipi, sem skráð er á Antígva og Barbúda, samband við stjórnstöð til að óska eftir heimild til að varpa akkerum á meðan skipt væri um olíusíu. Skipið var þá statt skammt austur af landinu. Um kvöldmatarleytið hélt það svo af stað áleiðis til Noregs. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því á öðrum tímanum á jólanótt kallaði skipstjórinn aftur í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Skipið var þá statt um ellefu sjómílur austur af Hvalbak, austustu eyju landsins. Að sögn skipstjóra var „ósiglandi í þessari brælu,“ eins og það er orðað í dagbók stjórnstöðvar en þá var hvöss austanátt á þessum slóðum og talsverður sjór. Hann óskaði því eftir að fá að leggjast aftur við akkeri þar sem skipt var um olíusíuna. Stjórnstöð ráðlagði honum að koma sér í var á Reyðarfirði uns veðrinu slotaði. Skipið varpaði akkerum undan Hólmanesi á Reyðarfirði og var þar allan jóladag. Að morgni annars dags jóla tilkynnti skipstjórinn að verið væri að létta akkerum og stefnan tekin á Noreg.

Annað flutningaskip og öllu stærra, Azalea Sky, rúmlega 80.000 brúttólesta lausafarmsskip skráð í Singapúr, var á ferð á svipuðum slóðum um jólaleytið. Stjórnstöðin fylgdist með því lóna á hægri suðvesturleið á Stokksnesgrunni og Mýrargrunni á jóladag og aðfaranótt annars dags jóla, að því er virtist til að fá skjól frá landinu. Skipið er á leið frá Múrmansk í Rússland til Las Palmas á Kanaríeyjum.

Um svipað leyti var Hordafor, 2.600 brúttólesta norskt efnaflutningaskip, statt undan Hvalnesi á leið frá Vestmannaeyjum til Noregs. Annað lítið flutningaskip, Fri Sea, skráð á Bahamaeyjum, var suður af Vestmannaeyjum á jóladag á leið sinni til Færeyja.

Enn eitt lausafarmsskipið, Tanikaze, tæplega 32.000 brúttólesta skip skráð í Panama, hafði svo samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar árla morguns annars dags jóla. Það var þá skammt suðvestur af landinu á leið til Grundartanga. Vont veður var á svæðinu, 14 metrar á sekúndu og rúmlega tólf metra ölduhæð. Skipið fékk tilmæli um rétta siglingaleið og breytti stefnu sinni í samræmi við þau.