Ásgeir Trausti kastar plötu í sjóinn

Tónlistarmaðurinn fór í gæsluflug með TF-GNA til að sjósetja flöskuskeyti

Áhöfnin á TF-GNA tók þátt í skemmtilegu verkefni með tónlistarmanninum Ásgeiri Trausta, RÚV og verkfræðistofunni Verkís fyrir helgi. Hylki með hljómplötu var varpað í hafið til þess að vekja athygli á mengun sjávar.

Fyrr á þessu ári varði Ásgeir Trausti heilum sólarhring í hljóðveri þar sem hann tók upp tónlist án afláts og setti jafnóðum á vínylplötur. Hann ákvað að nota nokkrar plötur í fjársjóðsleit og gefa aðdáendum færi á að eignast þær.


Fulltrúar Verkís með flöskuskeytið

Á föstudag gafst tækifæri til að koma einni plötunni í umferð þegar þyrlan TF-GNA fór í gæsluflug um miðin vestur af landinu. Ásgeir Trausti og föruneyti hans fengu að koma með í flugið og í farteskinu var auðvitað platan góða. Henni hafði verið komið fyrir í „flöskuskeyti“ sem verkfræðistofan Verkís hannaði og smíðaði. Þegar þyrlan var komin á stað um tuttugu sjómílur vestur af Garðskaga var flöskuskeytinu kastað í sjóinn úr um það bil tólf metra hæð. Í hylkinu er GPS-staðsetningarbúnaður og gervihnattasendir sem gerir fólki kleift að fylgjast með ferðalagi plötunnar . Þegar þessar línur eru skrifaðar hefur hylkið rekið lengra til vesturs, líklega hefur suðaustanstormurinn í gær haft sitt að segja. Spennandi verður að sjá hvar plötuna rekur á land og hver verður svo heppinn að finna hana.


Ásgeir Trausti ásamt félögum

Markmiðið með tiltækinu er meðal annars að vekja athygli á því að það sem fer í sjóinn hverfur ekki þar með heldur rekur um höfin uns því skolar á land annars staðar. Auk Verkís taka RÚV og Ævar vísindamaður þátt í þessu athyglisverða verkefni með Ásgeiri. Það fer líka saman við markmið Landhelgisgæslunnar um stuðning við vísinda- og rannsóknastarf.


„Flöskuskeytið“ bíður brottfarar