Sáttur eftir 15 ár í þyrluáhöfn og þúsundir hífinga

 

Hann Reynir Garðar Brynjarsson spilmaður og flugvirki hjá Landhelgisgæslunni flaug sitt síðasta flug í dag sem spilmaður og sjúkraflutningamaður í áhöfn þyrla Landhelgisgæslunnar eftir hvorki meira né minna en 15 ára farsælt starf í þyrluáhöfn. Eftir þessi 15 ár sem áhafnarmeðlimur á kappinn að baki hvorki meira né minna en 4235 hífingar og enn fleiri þyrluflug. Reynir Garðar hefur tekið þátt í fjölmörgum þyrlubjörgunum og svo sannarlega lagt sitt af mörkum til leitar- og björgunarverkefna Landhelgisgæslunnar. Reynir Garðar er þó hvergi nærri hættur störfum hjá Landhelgisgæslunni þar sem hann tekur nú við starfi viðhaldsskipulagsstjóra í flugtæknideild Landhelgisgæslunnar.

Forstjóri Landhelgisgæslunnar og samstarfsfélagar tóku á móti Reyni Garðari er hann kom úr fluginu í dag og óskuðu honum til hamingju með áfangann og árangurinn. Á þessum tímamótum þakkar Landhelgisgæslan Reyni Garðari fyrir hans ómetanlega framlag til björgunarstarfa Landhelgisgæslunnar og óskar honum velfarnaðar í nýja starfinu þar sem hann áfram mun taka þátt í björgunarstörfum Landhelgisgæslunnar en með öðrum hætti.