Skosk, norsk og írsk skip í ferilvöktun LHG

Yfir eitt þúsund skip í kerfum stjórnstöðvar LHG vegna óvenjulegra veðurskilyrða

Óvenjuleg veðurskilyrði eru helsta ástæða þess að mun fleiri skip hafa verið í vöktun hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar undanfarna daga en vanalega. Í hádeginu í gær voru 893 skip í kerfum stjórnstöðvarinnar, klukkan hálfsjö í morgun voru þau orðin 913 og nú í hádeginu hvorki fleiri né færri en 1058. 

Heiti háþrýstiloftmassinn suðaustur af landinu veldur því að í loftinu myndast tíbrá sem speglar VHF-merkjum ótrúlega langt miðað við það sem venja er. Þess vegna nemur stjórnstöðin AIS-merkjasendingar frá skipum allt suður úr Norðursjó og við Suðureyjar. Af sömu ástæðum heyrist í strandarstöðvum á Írlandi, Skotlandi og Noregi á rás 16.

Til hliðar sést stöðumynd um skipaumferð frá stjórnstöð LHG frá því snemma í morgun.