Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar eyðir dufli frá síðari heimsstyrjöld

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning seint á fimmtudagskvöld um að torkennilegur hlutur hefði fundist í árfarvegi nálægt Skinneyjarhöfða. Vegfarandi er fann hlutinn brást hárrétt við með því að hafa beint samband við Landhelgisgæsluna og tók hann jafnframt myndir af hlutnum og sendi til Landhelgisgæslunnar. Þar með gátu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar strax lagt mat á að um væri að ræða breskt dufl frá síðari heimsstyrjöld. Fóru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar því á vettvang strax í gærmorgun til að eyða duflinu.

Við skoðun mynda af duflinu virtist sem það væri opið öðru megin og sprengiefnatunna mögulega enn í því. Er sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar komu á vettvang mokuðu þeir frá duflinu og kom þá í ljós að sprengiefnið hafði verið brennt fyrir löngu. Hins vegar ákváðu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að eyða duflinu til að taka af allan vafa.

Landhelgisgæslan ítrekar mikilvægi þess að vegfarendur tilkynni ef þeir verða varir við hluti sem þessa og vill koma á framfæri kæru þakklæti til vegfarandans sem hafði samband. Þó svo að í þessu tilviki hafi ekki verið nein hætta á ferð er það aðeins á færi sérþjálfaðra aðila að ganga úr skugga um slíkt og því mikilvægt að hreyfa ekki við neinu heldur tilkynna umsvifalaust um fundinn til Landhelgisgæslunnar.

 
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu duflinu til öryggis.