Strandveiðar standa sem hæst

Mikið annríki í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar

Strandveiðar standa nú sem hæst og er því verulegt annríki í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Klukkan 11:00 í morgun voru er mest lét, alls 840 bátar á sjó enda veðurblíða á miðunum. Hlutverk stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar er að fylgjast með bátunum en þeir tilkynna sig inn í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar við brottför. Hverfi bátar úr ferilvöktun stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar setja starfsmenn þar ferli í gang til að hafa upp á viðkomandi og þá hefja leit í framhaldinu.

Starfsmenn okkar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eru almennt ánægðir með samstarfið við strandveiðisjómennina en afar mikilvægt er að sjómenn hlusti vel á rás 16. Einnig er mjög mikilvægt að sjómenn tilkynni um breytt símanúmer um borð, sérstaklega ef eigandabreyting hefur orðið á bátum. Ef sjómenn verða varir við endurtekin köll eftir bátum sem þeir eru í sambandi við eða hafa einhverjar upplýsingar um, eru þeir beðnir um að láta stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vita en það getur komið í veg fyrir óþarfa leit.

Strandveiðitímabilið nær yfir fjóra mánuði frá og með maí til loka ágúst og munu okkar menn í stjórnstöðinni standa vaktina til að tryggja sem best öryggi strandveiðisjófarenda.