TF-LIF sækir tvo slasaða ferðamenn eftir bílveltu vestan við Vík

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 15:42 í dag beiðni um aðstoð þyrlu vegna bílslyss vestan við Vík í Mýrdal þar sem tveir erlendir ferðamenn höfðu slasast. 

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið aðeins um tíu mínútum eftir að útkallið barst. Tók það þyrluna um 40 mínútur að fljúga á vettvang. Lenti hún á veginum að Reynisfjöru og tryggði lögregla öruggan lendingarvettvang. Læknir og stýrimaður í áhöfn mátu ástand hinna slösuðu og bjuggu þá til flutnings. Voru þeir fluttir til Reykjavíkur þar sem lent var við Landspítala Háskólasjúkrahús um tuttugu mínútur í sex í kvöld.​