Fréttir

Þyrlan lenti á Eiðsgrandanum

Hríðarhraglandi gerði áhöfninni erfitt fyrir

5.2.2018

Þyrlan TF-GNA var fyrr í dag kölluð út vegna umferðaróhapps á Suðurlandi en aðstoð hennar var svo afturkölluð. Þegar þyrlan ætlaði að lenda aftur hafði skyggni við Reykjavíkurflugvöll spillst svo mikið vegna dimmra élja að ekki reyndist unnt að lenda þar. 

Þyrlan fikraði sig meðfram strandlengjunni en þegar skyggnið hélt áfram að versna ákvað áhöfnin að lenda þyrlunni á grasflöt við Eiðisgranda í vesturbæ Reykjavíkur. Lögreglu var gert viðvart vegna lendingarinnar.

Nákvæmlega klukkustund eftir lendinguna á Eiðsgranda sætti áhöfn þyrlunnar lagi á milli élja og færði þyrluna yfir á Reykjavíkuflugvöll. Flugferðin frá Eiðsgrandanum yfir á Reykjavíkurflugvöll tók nákvæmlega tvær mínútur enda er flugvöllurinn aðeins spölkorn frá. 

Það er mjög sjald­gæft að þyrla Landhelgisgæslunnar neyðist til að lenda ann­ars staðar á höfuðborg­ar­svæðinu en á flugvellinum. Áhafnirnar eru hins vegar þaulreyndar í að lenda utan flugvalla, til dæmis á þjóðvegum og fjallstindum, enda er aðstoðar þyrlunnar oftast þörf utan alfaraleiðar. 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica