Þyrlan skutlaði skólabörnum heim

Þyrlusveit LHG hafði í mörg horn að líta á flóðasvæðunum suðaustanlands

Þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar voru í eldlínunni í nýliðinni viku þegar mikil úrkoma og vatnavextir settu samfélagið úr skorðum suðaustanlands. TF-LIF fór austur á fimmtudaginn og daginn eftir kom TF-GNA einnig á vettvang. 


Þyrlurnar á Hornafjarðarflugvelli

Verkefnin voru vægast sagt margvísleg. Þyrlurnar voru notaðar til að kanna ástand brúa og þjóðvega, sýna forsætisráðherra og föruneyti hans ástandið á flóðasvæðinu, flytja starfsfólk heilbrigðisstofnana á milli staða, koma lyfjum og vistum á bæi sem voru innlyksa og skutla skólabörnum heim. Þá var fjöldi fólks fluttur yfir Steinavötn en brúin yfir ána stórskemmdist í flóðunum. 


Daníel Hjaltason flugvirki, Teitur Gunnarsson stýrimaður, Sigurður Ásgeirsson flugstjóri og Lárus Helgi Kristjánsson flugmaður ásamt Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. Mynd: Svanhildur Hólm Valsdóttir

Báðar þyrlurnar voru á svæðinu lungann úr föstudeginum en um kvöldið fór TF-LIF aftur til Reykjavíkur. TF-GNA sinnti svo ýmsum verkefnum á laugardag en hélt svo heim á leið undir kvöld. Þeir Teitur Gunnarsson og Hreggviður Símonarson, stýrimenn á TF-LIF og TF-GNA, tóku fjölda mynda sem sýna glöggt hvernig ástandið var á svæðinu þegar flóðin stóðu sem hæst. Friðrik Jónas Friðriksson, í svæðisstjórn björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar, tók myndina skemmtilegu af unga manninum sem fékk far með þyrlunni úr skólanum en Svanhildur Hólm Valsdóttir tók myndirnar af áhöfn TF-LIF.




22157072_10155768070979310_377314649_n

IMG_1364

IMG_1347

22141235_10154688208036599_6491557680462253627_n