Varðskipið Þór og þyrlan TF-LIF með öfluga æfingu saman

 

Æfingar eru einn af mikilvægustu þáttum í starfsemi Landhelgisgæslunnar og æfa áhafnir varðskipa, loftfara og aðrar einingar Landhelgisgæslunnar saman með reglubundum hætti til að vera sem best viðbúnar þegar á reynir.

Þessar flottu myndir voru teknar af áhöfninni á varðskipinu Þór er varðskipið æfði með áhöfn þyrlunnar TF-LIF í blíðskaparveðri vestan við Garðskaga í gær. Fyrst var æft að flytja slasaðan sjómann frá borði í sjúkrabörum. Í beinu framhaldi setti áhöfnin á þyrlunni óvænt upp æfingu þar sem líkt var eftir vélarbilun um borð í þyrlunni og að hún væri að fara í sjóinn, áhöfninni á varðskipinu alveg að óvörum. Kallaði áhöfn þyrlunnar eftir aðstoð og stukku þá varðskipsmenn strax til og sjósettu björgunarbát og sigldu að þyrlunni á aðeins einni mínútu sem er til marks um fumlaus og snögg viðbrögð varðskipsmanna. Þá var ein sjóæfing tekin þar sem áhöfn þyrlunnar sótti tvo aðila um borð í björgunarbát og tvo úr sjó. Tveir kafarar frá Landhelgisgæslunni tóku einnig þátt í æfingunni.

Að því loknu var þyrlunni gefið eldsneyti frá varðskipinu með svokölluðum HIFR búnaði varðskipsins. Gerir sá búnaður varðskipinu kleift að gefa þyrlum Landhelgisgæslunnar smá „sjúss“ meðan þær svífa yfir varðskipinu. Nauðsynlegt er að æfa þann þátt reglubundið enda má engu skeika þegar slík aðgerð er framkvæmd.

Æfingarnar allar gengu mjög vel og voru áhafnir varðskipsins sem og þyrlunnar afar sáttar við hvernig til tókst.

 
Sjómanni bjargað úr sjó um borð í þyrluna.
 
Maðurinn hífður upp í þyrluna.
 
Æfð björgun úr björgunarbát.
 
Þyrlan yfir varðskipinu og allt gert tilbúið fyrir smá "drykk" fyrir þyrluna.
 
Flugvirki í áhöfn þyrlunnar tryggir að allar tengingar vegna eldsneytisgjafar séu í lagi.
 
Tönkunin gengur eins og í sögu.
 
Varðskipsmenn tryggja að allt gangi eftir settum reglum meðan þyrlan fær sér smá "sjúss"
 
Sigmaður í áhöfn þyrlunnar vippar sér fimlega um borð að lokinni vel heppnaðri æfingu.