Varðskipið Þór til aðstoðar norsku fiskflutningaskipi

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst nú um áttaleytið í kvöld beiðni um aðstoð frá norska fiskflutningaskipinu Gunnar Thordarson sem statt var innarlega í Arnarfirði. Hafði skipið fengið tóg úr eldiskví í skrúfuna og lent í vandræðum í framhaldinu.

Varðskipið Þór var statt á Þingeyri er beiðnin barst og var Þór þegar sendur á vettvang. Er varðskipið kom að skipinu reyndust veðurfarslegar aðstæður þess eðlis að ekki var talið óhætt að taka skipið í tog á þeim stað þar sem það er nú statt innan um eldiskvíar. Var ákveðið að bíða birtingar er aðstæður verða betri. Varðskipið Þór verður á vettvangi og til taks ef aðstæður breytast en ekki er talin hætta á ferðum. Verður þess svo freistað í birtingu að taka skipið í tog og draga til hafnar á Bíldudal.