Varðskipið Týr tók þátt í Dynamic Mongoose

Kafbátaleitaræfingin hófst fyrir rúmri viku og lýkur á morgun

Varðskipið Týr hefur undanfarna viku tekið þátt í kafbátaeftirlitsæfingunni Dynamic Mongoose 2017, sem fram fer suður af landinu. Skipið hefur verið við rannsóknir og æfingar ásamt Alliance rannsóknarskipi Atlantshafsbandalagsins. Þessar myndir voru teknar af skipunum í gær.


Mynd: Varðskipið Týr og rannsóknarskipið Alliance

Kafbátaeftirlitsæfingin, sem er á vegum Atlantshafsbandalagsins, hófst fyrir rúmri viku og lýkur henni á morgun. Níu ríki Atlantshafsbandalagsins auk Íslands, taka þátt: Bandaríkin, Noregur, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Danmörk, Kanada, Pólland og Holland. Þau leggja til fimm kafbáta, níu freigátur og eitt rannsóknarskip, auk 6-8 kafbátaleitarflugvéla og þyrla. Rúmlega tvö þúsund manns eru þátttakendur í æfingunni.


Mynd: Áhöfn Týs ásamt skipverja af Alliance.

Árin 2012-2016 hafa árlegar æfingar af þessu tagi verið haldnar undan ströndum Noregs, en í ár er æfingin haldin suður af Íslandi. Íslendingar leggja til aðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og Landhelgisgæsla Íslands tekur þátt í æfingunni, m.a. með stjórnstöð á öryggissvæðinu auk þess sem varðskipið Týr, flugvél gæslunnar og þyrlur taka þátt í þeim hluta æfingarinnar sem tengjast hefðbundnum verkefnum stofnunarinnar. Um fjörutíu starfsmenn LHG hafa tekið þátt í verkefninu dag og nótt og hafa verið hluti af framkvæmdinni, til dæmis hefur öll flugi verið stjórnað frá stjórnstöð LHG/NATO í Keflavík ásamt gistiríkjastuðningi fyrir þá 250 þátttakendur sem hafa dvalið og starfað í Keflavík.  Þá er þáttur Isavia einnig stór.