Vel heppnuð samæfing loftfara, varðskips og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar

Samæfing loftfara, varðskips og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar var haldin síðastliðin laugardag. Þátt tóku tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, flugvélin TF-SIF, varðskipið Þór og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. 

Æfingar sem þessar eru nauðsynlegur hluti af starfsemi Landhelgisgæslunnar, bæði til að æfa samhæfð viðbrögð og samstarf eininga en ekki síður til að yfirfara verkferla og stjórnun aðgerða.

Líkt var eftir því að 15 tonna bátur sem lagði af stað frá höfn á Snæfellsnesi kom ekki fram á tilsettum tíma til hafnar í innanverðum Faxaflóa. Til að byrja með var hafin hefðbundin eftirgrennslan og síðan kallaðar út einingar Landhelgisgæslunnar til samræmis við verkferla og leitarsvæði ákvarðað með aðstoð þar til gerðs forrits í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Á seinni stigum æfingarinnar var líkt eftir því að neyðarkall bærist frá bátnum og að neyðarsendir færi í gang sem loftför og varðskip miðuðu út.

Björgunarbátur með tveimur brúðum innanborðs hafði verið sjósettur til að gera æfinguna sem raunverulegasta en einnig var ein brúða sett í sjóinn í nálægð við bátinn.  Að lokum leiðbeindi flugvél Landhelgisgæslunnar þyrlum að björgunarbátnum, brúðurnar voru hífðar upp úr bátnum og slakað niður í varðskipið Þór sem var nokkrum sjómílum frá. Eins var við þetta tækifæri æfð eldsneytistaka þyrlu frá varðskipinu Þór. Í loftförum Landhelgisgæslunnar voru félagar úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík en þeir hafa haft það hlutverk um árabil að manna stöður þeirra sem eru á rýnisvakt eða með öðrum orðum, að lána auka augu því betur sjá augu en auga.

Æfingin gekk að öllu leyti mjög vel og voru starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem og samstarfsaðilar sem þátt tóku ánægðir með árangur æfingarinnar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá útreiknað leitarsvæði miðað við fyrirliggjandi upplýsingar í byrjun aðgerðar.