Viðbrögð æfð við eldi í skemmtiferðaskipi

LHG, AECO og leitar- og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi gangast fyrir æfingu í Reykjavík

Eldur kemur upp um borð í skemmtiferðaskipi á siglingu norður frá Íslandi til Jan Mayen. Skipstjórinn lýsir yfir neyðarástandi og kallar eftir aðstoð. Þetta er úrlausnarefni þátttakenda á ráðstefnu og viðbragðsæfingu sem Landhelgisgæsla Íslands, Samtök útgerða skemmtiferðaskipa á norðurslóðum (AECO), og leitar- og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi gangast fyrir í Reykjavík í þessari viku. Æfingin hófst í morgun í Rúgbrauðsgerðinni og stendur hún í tvo daga.


Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Frigg Jørgensen, framkvæmdastjóri AECO, og Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði LHG.

Það er kunnara en frá þarf að segja að umferð skemmtiferðaskipa á norðurslóðum hefur vaxið ört á undanförnum árum, meðal annars svonefndra rannsóknarfarþegaskipa. Þessar siglingar eru alls ekki hættulausar, á norðanverðu Atlantshafi og Norður-Íshafi er allra veðra von, hafís getur stefnt sjófarendum í hættu og miklar fjarlægðir þýða að leit og björgun er flóknari og tímafrekari en víða annars staðar. Því er afar áríðandi að yfirvöld, útgerðir og allir þeir sem sinna leit og björgun séu vel undir það búnir að bregðast við hættuástandi á svæðinu.

Georg Kr Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, lagði áherslu á mikilvægi samvinnu allra hlutaðeigandi aðila á þessu sviði þegar hann bauð þátttakendur á æfingunni velkomna í morgun. Hann tók í sama streng í viðtali við Ríkisútvarpið þar sem hann undirstrikaði áskoranirnar sem fylgdu leit og björgun á norðurslóðum. „Það er hægt að segja að við séum ekki nægjanlega vel í stakk búin og það er í raun enginn. Það getur ekkert eitt ríki borið ábyrgð á þessu eða séð um það sem kann að geta gerst þegar um er að ræða fleiri hundruð manns um borð í einu skipi sem lendir í vandræðum.“


Frá æfingunni í morgun. 

Æfingin í Rúgbrauðsgerðinni er svonefnd skrifborðsæfing (e. table top exercise) og hana sækja um sjötíu fulltrúar björgunaraðila, útgerða og annarra sem starfa á norðurslóðum. Markmiðið með æfingunni er styrkja samstarf og þekkingu þessara aðila.