Almennt eftirlit

Almenn löggæsla á hafinu felst fyrst og fremst í því að hafa eftirlit með farartækjum á sjó. Það er annað hvort gert með varðskipum eða loftförum og leiðir það af sjálfu sér að fyrst og fremst er verið að fylgjast með því hvort skipin eru haffær og hvort þau hafa nauðsynlegan öryggisbúnað, hvort stjórnendur þeirra hafa tilskilin réttindi, hvort brotið er gegn lögum um fiskveiðar, fiskveiðistjórnun og nytjastofna sjávar. Einnig er verið að fylgjast með mengun, farartálmum á sjó sem valdið geta sjófarendum tjóni og hvort vitar og önnur siglingamerki eru í lagi. Við þetta bætist ýmislegt annað t.d. eftirlit samkvæmt tollalögum nr. 88/2005 og lögum um siglingavernd nr. 50/2004, þ.m.t. hvort farartæki á sjó eru notuð í ólögmætum tilgangi.

Ferðir varðskipa eru skipulagðar þannig að þau komi að sem mestu gagni t.d. að þau séu í grennd við veiðisvæði, þar sem eitthvað er að gerast, t.d. á loðnumiðum þegar þær veiðar standa hæst. Ekki er eingöngu verið að hugsa um fiskveiðieftirlit heldur einnig möguleika á aðstoð og björgun ef veiðiskipin þurfa á slíkri þjónustu að halda. Loftförin eru einnig notuð til að fljúga yfir veiðisvæði, t.d. lokuð svæði, og kanna hvort þar er verið að veiða í heimildarleysi eða fremja önnur lögbrot. Varðskipin og loftförin hafa margvísleg önnur verkefni sem fjallað er um í þessum kafla.

(Dagmar Sigurðardóttir, ritgerð til meistaraprófs í sjávarútvegsfræðum)

IMG_0022
Þetta vefsvæði byggir á Eplica