Eftirlit með skipum

Landhelgisgæslan, sjávarútvegsráðuneytið og Fiskistofa fara sameiginlega með fjareftirlit með erlendum fiskiskipum og íslenskum fiskiskipum sem stunda veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum og í lögsögum annarra ríkja samkvæmt milliríkjasamningum og fjölþjóðlegum samningum.

Heimild til fjareftirlits með fiskiskipum byggist á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða en samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laganna getur ráðherra með reglugerð ákveðið að settur skuli, á kostnað útgerða, sjálfvirkur eftirlitsbúnaður til fjareftirlits um borð í fiskiskip. Í 1. mgr. sömu lagagreinar segir að Fiskistofa annist eftirlit með framkvæmd laga þessara og hafi í því skyni sérstaka eftirlitsmenn í sinni þjónustu. Hvergi er minnst á Landhelgisgæsluna í þessum lögum.

Í 9. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22/1998 segir m.a. að ráðherra sé heimilt að setja frekari reglur um tilkynningar til stjórnvalda, fjareftirlit og skyldu til að sigla inn í og út úr fiskveiðilandhelgi Íslands á tilteknum athugunarstöðvum. Samkvæmt 7. gr. sömu laga er eftirlit með framkvæmd laga þessara í höndum Landhelgisgæslunnar, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu. Sérstaklega er tekið fram í 5. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22/1998 að 17. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 gildi um erlend skip og önnur lagaákvæði og reglugerðir sem gilda um veiðar íslenskra skipa í fiskveiðilandhelginni gildi einnig um þau.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands segir m.a. að ráðherra skuli með reglugerð gera íslenskum skipum að sæta því eftirliti sem kveðið er á um í samningum sem Ísland er aðili að. Í 2. mgr. 8. gr. sömu laga segir m.a. að ráðherra skuli með reglugerð gera íslenskum skipum að fullnægja ákvæðum samninga sem Ísland er aðili að um tilkynningaskyldu og upplýsingagjöf til erlendra stjórnvalda eða alþjóðastofnana. Í 11. gr. sömu laga segir að íslenskum stjórnvöldum sé heimilt að gera aðrar þær ráðstafanir gagnvart erlendum skipum vegna veiða þeirra á úthafinu sem nauðsynlegar eru til að framfylgja samningum sem Ísland er aðili að.

Á grundvelli framangreindra lagaákvæða er íslenskum fiskiskipum sem stunda úthafsveiðar og erlendum fiskiskipum sem veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu gert að hafa sjálfvirkan eftirlitsbúnað sem sendir upplýsingar um staðsetningu þeirra um gervihnött til eftirlitsstöðva í landi. Upplýsingar um staðsetningu íslensku skipanna berast til Landhelgisgæslunnar en upplýsingar um staðsetningu erlendu skipanna berast til heimaríkja þeirra en eru svo sjálfvirkt framsendar til Landhelgisgæslunnar ef skipin fara inn í íslenska efnahagslögsögu. Í reglugerðum um ýmiss konar veiðar og veiðisvæði eru ákvæði um fjareftirlit og tilkynningar til Landhelgisgæslunnar.

(Dagmar Sigurðardóttir, ritgerð til meistaraprófs í sjávarútvegsfræðum)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica