Fiskveiðieftirlit

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52/2006 segir að Landhelgisgæslan hafi það verkefni að sinna almennri löggæslu á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirliti. Í lögunum er ekki nánar fjallað um með hvaða hætti slíkt eftirlit fer fram enda er kveðið á um það í lögum um fiskveiðar.

Í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997 er Landhelgisgæslunni fengið mikilsvert hlutverk við eftirlit með fiskveiðum. Er þetta verkefni sameiginlega á könnu Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslunnar. Segir þar m.a. í 2. mgr. 10. gr. að verði starfsmenn Landhelgisgæslunnar varir við að stundaðar séu skaðlegar veiðar, skuli þeir tilkynna það til Hafrannsóknastofnunar eða þeirra aðila sem stofnunin tilnefnir í því skyni.

Veiðar teljast vera skaðlegar skv. 3. mgr. 10. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þegar smáfiskur í afla fer yfir þau viðmiðunarmörk sem ráðherra hefur ákveðið að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Sama gildir um veiðar á smáhumri, smárækju eða öðrum tegundum nytjastofna, enda hafi verið sett viðmiðunarmörk varðandi nýtingu hlutaðeigandi stofns. Þá teljast það enn fremur skaðlegar veiðar í þessu sambandi ef telja verður að veiðarnar séu ekki í samræmi við aðrar ákvarðanir sem teknar hafa verið um hagkvæma nýtingu viðkomandi nytjastofna.

Eftirlit varðskipsmanna felst í því að mæla stærð fisks um borð í bátum og skipum og reynist meðaltal fisks vera undir leyfilegum viðmiðunarmörkum gerir skipherra vakthafandi fiskifræðingi hjá Hafrannsóknastofnun viðvart og gerir tillögu um lokun svæðis. Áður en skipherra gerir slíka tillögu á hann að ráðfæra sig við skipstjóra sem eru að veiðum á svæðinu. Í framhaldi af því taka sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar ákvörðun um skyndilokun hafsvæðisins. Skal skv. 4. mgr. 10. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands í framhaldi af því tilkynna veiðieftirliti Fiskistofu og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um skyndilokanir.

Samkvæmt 6. mgr. 10. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er sjávarútvegsráðuneytinu heimilt að leyfa einstökum fiskiskipum að stunda tilraunaveiðar á svæðum sem lokað hefur verið tímabundið skv. 4. mgr. Slíkt skal þó jafnan gert undir eftirliti Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar eða Landhelgisgæslunnar og skal skipstjórnarmönnum skylt að fara að fyrirmælum eftirlitsaðila varðandi tilraunaveiðarnar.

Eftirlit Landhelgisgæslunnar á hafi úti felst í því að áhafnir varðskipa framkvæma svokallaðar skyndiskoðanir. Við skyndiskoðun eru skipsskjöl, búnaður, lögskráning, atvinnuréttindi yfirmanna, veiðarfæri og afli skoðaður. Við skoðun notar handhafi löggæsluvalds staðlað form til að merkja við þá þætti sem kannaðir eru og skrá niður ef eitthvað er athugavert og ólöglegt. Að lokinni skoðun er skipstjóra gefinn kostur á að skrá athugasemdir og hann undirritar einnig skýrsluna. Hafi fiskveiðibrot verið framið, er skipinu vísað til hafnar þar sem lögreglan rannsakar málið til hlítar. Landhelgisgæslan sendir lögreglustjóra kæru og hann tekur síðan ákvörðun um hvort ákært er í málinu.

Í eftirtöldum lögum er fjallað um fiskveiðieftirlit Landhelgisgæslunnar:
Lög um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996
Lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997
Lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22/1998
Lög um lax og silungsveiði nr. 61/2006

Framkvæmdavaldið setur á grundvelli framangreindra laga sett margvíslegar reglugerðir um fiskveiðar, veiðisvæði, veiðarfæri og eftirlit sem finna má á vefsíðu  atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica