Mengunareftirlit

Umhverfisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra hefur eftirlit með framkvæmd mengunareftirlits. Landhelgisgæsla Íslands, annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó. Landhelgisgæsla Íslands tilkynnir Umhverfisstofnun og lögregluyfirvöldum um svæði þar sem mengun getur borist á land ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á mengun hafs eða stranda.

Eigendur skipa eða skipstjórnarmenn og eigendur eða rekstraraðilar vinnu- og borpalla á hafi úti og fyrirtækja í landi skulu tafarlaust tilkynna stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands um alla losun, varp og mengun sem lög þessi ná til innan mengunarlögsögu Íslands, sem og á strendur, nema um sé að ræða varp og losun sem sérstaklega er heimil samkvæmt lögunum. Tilkynningarskyldan nær einnig til íslenskra skipa utan mengunarlögsögu Íslands eftir því sem við á og Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum. Landhelgisgæslan skal framsenda tilkynningar svo fljótt sem auðið er til Umhverfisstofnunar.

Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að grípa til íhlutunar og gera þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar á hafsvæðinu innan mengunarlögsögu Íslands til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu sem hafi eða ströndum stafar af bráðamengun. Í íhlutun felst m.a. yfirtaka á stjórn skips sé fyrirmælum Landhelgisgæslu Íslands ekki fylgt. Þetta gildir þó ekki um skip sem eru í rekstri erlendra ríkja og notuð í þjónustu ríkisvalds hlutaðeigandi ríkis við störf sem flokkast ekki undir verslunarviðskipti.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica