Schengen

Í 54. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 segir í c-lið 1. mgr. að stjórnandi skips sem siglir yfir mörk landhelginnar á leið til eða frá íslenskri höfn, skuli láta lögreglunni í té skrá um farþega og áhöfn.

Í 5. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 eru ákvæði um skyldu skipa til að tilkynna sig til Landhelgisgæslunnar en Landhelgisgæslan sér svo um að framsenda allar upplýsingar til ríkislögreglustjórans. Reglugerð þessi er sett af dómsmálaráðuneytinu með stoð í lögum um útlendinga nr. 96/2002. Með reglugerð um útlendinga nr. 53/2003 var reglugerð um landamærastöðvar og tilkynningaskyldu flytjenda felld úr gildi en hún var sett árið 2001 til að uppfylla skyldur skv. Schengen-samkomulaginu. Kveðið er á um tilkynningaskyldu stjórnanda skips í 5. gr. reglugerðar um útlendinga en hún hefur að geyma sérreglur um komu og brottför skipa. Samkvæmt henni ber stjórnanda skips að tilkynna Landhelgisgæslunni um komu a.m.k. 24 klst. áður en siglt er inn í íslenska landhelgi. Samtímis skal tilkynna um áætlaða brottför. Staðfestingu á brottför úr höfn skal tilkynna Landhelgisgæslunni a.m.k. 6 klst. fyrir brottför. Í tilkynningunni þurfa að koma fram mjög ítarlegar upplýsingar um skipið og ferðir þess auk skrár yfir áhöfn og farþega skips í samræmi við ákvæði 109. gr. Landhelgisgæslan sér svo um að framsenda upplýsingar til ríkislögreglustjórans.

(Dagmar Sigurðardóttir, ritgerð til meistaraprófs í sjávarútvegsfræðum)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica