Siglingavernd

Í lögum um siglingavernd nr. 50/2004 er Landhelgisgæslunni falið mikilvægt hlutverk við verndun skipa, áhafna, farþega og farms og gegn hvers kyns ógn af hryðjuverkum eða öðrum ólögmætum aðgerðum sbr. 1. tl. a. 3. gr. laganna. Siglingavernd er þar skilgreind sem ráðstafanir samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS 74) auk alþjóðakóða (ISPS Code) um skipa- og hafnavernd sbr. 1. tl. 3. gr. laga um siglingavernd.

Landhelgisgæslan fer samkvæmt 4. gr. siglingaverndarlaga með framkvæmd siglingaverndar ásamt Siglingastofnun Íslands, tollyfirvöldum, ríkislögreglustjóranum, útgerðarfélögum og höfnum sem falla undir lög þessi. Í 7. mgr. 4. gr. laga um siglingavernd segir að Landhelgisgæslan hafi eftirlit með að lögum um siglingavernd sé framfylgt á hafinu umhverfis Ísland í samræmi við ákvæði alþjóðasamninga. Í 5. mgr. 7. gr. siglingaverndarlaga segir hins vegar að ríkislögreglustjórinn ákveði vástig um borð í skipum og í höfnum. Þegar ógn steðji að ákveði hann hækkun vástigs um borð í skipum eða í höfnum að höfðu samráði við Siglingastofnun og Landhelgisgæslu nema þegar um bráðatilvik er að ræða, þá taki hann ákvörðun einn. Þegar vástig sé hækkað í höfnum eða skipum ákveði ríkislögreglustjórinn hvenær hann tekur við stjórn aðgerða samkvæmt viðeigandi verndaráætlun og almennum lögum um lögregluaðgerðir.

(Dagmar Sigurðardóttir, meistararitgerð í sjávarútvegsfræðum)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica