Starfsemi og starfsvettvangur

Starfsemi Landhelgisgæslu Íslands er skipt í kjarnastarfsemi og stoðstarfsemi. Kjarnastarfsemin er annarsvegar það sem hefð hefur verið að kalla gæsluframkvæmdir og hins vegar sjómælinngar. Tæknilegur rekstur og fjármálaþjónusta er í sérstöku rekstrarstoðsviði sem þjónar kjarnasviðunum. Sviðunum er síðan þjónað af stoðeiningum.

Kjarnasviðin eru Aðgerðasvið og Sjómælingasvið. Stoðsviðið eru Rekstrarsvið og stoðeiningarnar eru Stjórnsýslusvið og Starfsmannasvið.

Starfsvettvangur Landhelgisgæslu Íslands er hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan (EEZ) og landgrunnið, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðarréttar. Leitar og björgunarsvæði Íslands nær fyrst og fremst yfir íslensku efnahagslögsöguna en samkvæmt skilgreiningu alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) er Ísland ábyrgt fyrir leit og björgun á svæði sem er talsvert stærra. Þá sinnir Landhelgisgæslan einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld.Myndir_vardskipstur_012

Efnahagslögsagan er gríðarlega stór miðað við stærð landsins og leitar- og björgunarsvæði Íslendinga nær yfir um 1,8 millj ferkílómetra sem er meira en tvöfalt stærra en efnahagslögsagan. Lífslíkur sjófarenda sem þurfa að yfirgefa skip sitt eru háðar því að hægt sé að koma björgunareiningum á vettvang á skömmum tíma. Að jafnaði eru um 300 íslensk skip á sjó innan EEZ dag hvern, þó svo að fjöldi þeirra geti farið niður í 50 og hátt upp í 1000. Árlega koma um 2.000 flutningaskip til landsins og með auknum útflutningi má gera ráð fyrir að komum flutningaskipa til landsins fjölgi á næstu árum. Árið 2011 komu 199 skemmtiferðaskip til Íslands með 152.381 farþega um borð og er spáð aukningu á þeim vettvangi á næstu árum. Þá hefur fjölgað ferðum erlendra og innlendra skemmtibáta við Ísland undanfarin ár.

Hafsvæðið umhverfis Ísland er talið vera eitt það erfiðasta á jörðinni vegna mikillar veðurhæðar, ölduhæðar, ísingar og kulda. Þá skapar rekís hættu fyrir skip norður og norðvestur af landinu og getur hrakið skip nær landi en æskilegt er. Slíkt skapar aukna hættu á að skip verði fyrir áföllum sem leitt geta til mannskaða og alvarlegra umhverfisslysa.

Mynd LHG.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica