TF-SIF kemur til Íslands

TF-SIF, ný eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslu Íslands kom til landsins þann 1. júlí 2009 á 83 ára afmælisdegi Landhelgisgæslunnar.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar og aðrir gestir komu saman í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli og voru viðstaddir komu vélarinnar. TF-SIF flaug lágflug yfir flugbrautina ásamt tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar, TF-LIF og TF-GNÁ.

TF-SIF lenti glæsilega í góðviðrinu og þegar vélin keyrði eftir flugbrautinni að flugskýli Landhelgisgæslunnar fékk hún viðhafnarmóttökur frá slökkviliðinu á Reykjavíkurflugvelli sem sprautaði í viðhafnarboga yfir vélina.

SIF_vidhafnarsprautun

Viðhafnarmóttökur slökkviliðsins á Reykjavíkurflugvelli

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra tók á móti vélinni og áhöfn hennar. Áhöfnin var að vonum ánægð við heimkomuna og ekki hvað síst með hina glæsilegu vél sem boðar byltingu í eftirlits-, öryggis- og björgunarmálum Íslendinga og stóreykur möguleika á innlendu sem erlendu samstarfi Landhelgisgæslunnar.

SIF_Ahofn_radherra
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra og Halldór Nellett, framkvæmdastjóri
Aðgerðasviðs taka á móti áhöfn TF-Sifjar, Georgi Kr. Lárussyni forstjóra
Landhelgisgæslunnar og Joar Gronlund framkvæmdastjóra Field Aviation.SIF_Radherra_avarp
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra ávarpar gesti

Í tilefni af komu TF-Sifjar til landsins ávarpaði dómsmálaráðherra gesti og ræddi um mikilvægi starfsemi Landhelgisgæslunnar. Sagði ráðherra komu flugvélarinnar til landsins marka tímamót og skapa stóraukna möguleika til eftirlits-, björgunar- og löggæslustarfa á hafinu umhverfis landið jafnt á nóttu sem degi. Þá kom fram í máli ráðherra að leitar- og björgunarsvæði Landhelgisgæslunnar nær fyrst og fremst yfir íslensku efnahagslögsöguna en að auki á svæði sem nær yfir um 1,8 milljónir ferkílómetra. „Þetta geysivíðfeðma hafsvæði er talið vera eitt það erfiðasta á jörðinni vegna mikillar veðurhæðar, ölduhæðar, ísingar og kulda. Landhelgisgæslan á langt og farsælt samstarf við systurstofnanir sínar erlendis hvort heldur er um að ræða strandgæslur og flotadeildir nágrannaríkja, en í sumum ríkjum starfa strandgæslur innan flotadeilda ríkis. Virk þátttaka okkar í slíku öryggissamstarfi er okkur mikilvæg til þess að tryggja skjótari viðbrögð þessara aðila við löggæslu- og björgunarstörf“ sagði ráðherra í ræðu sinni. 

SIF_Georg_avarp
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar hélt ræðu

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar hélt ræðu og lýsti eiginleikum vélarinnar og þakkaði öllum þeim sem að verkinu hafa komið.  Í ræðu sinni sagði Georg meðal annars: „Á hverjum degi drögum við hjá Landhelgisgæslunni íslenska fánann að húni, þess minnug að hlutverk okkar er að standa vörð um fullveldi Íslands á hafsvæðinu kringum landið og stuðla þannig að öflugri öryggis- og löggæslu, eftirliti, leit og björgun.  Í dag er áralangt baráttumál Landhelgisgæslufólks og allra þeirra er bera hag íslenskrar landhelgisgæslu, hafsvæðisins og auðlindarinnar fyrir brjósti orðið að raunveruleika.“ 

SIF_Hjalmar_blessar
Sr. Hjálmar Jónsson, blessar vélina og áhafnir hennar


Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur blessaði vélina og áhafnir hennar og færði Landhelgisgæslunni að gjöf biblíu til varðveislu í TF-SIF.  Efndi hann til fjöldasöngs barna sem glöddust með foreldrum sínum við komu vélarinnar og sagði þau til marks um öll hin efnilegu ungmenni sem síðar munu gæta að fullveldi íslenskrar þjóðar.

Var gestum að athöfn lokinni boðið að þiggja kaffi og kleinur.

TF-SIF var formlega afhent í Kanada, föstudaginn 26. júní sl.  Viðstaddir afhendinguna voru forstjóri Landhelgisgæslunnar og frú Sigríður Anna Þórðardóttir sendiherra Íslands í Kanada, auk áhafnar vélarinnar og starfsmanna Field Aviation. 

Í ræðu Georgs Kr. Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar  kom fram að nú er lokið rúmlega fjögurra ára ferli sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa frá upphafi unnið að af útsjónarsemi og fagmennsku með góðri aðstoð víða úr heiminum. Þakkaði hann sérstaklega sænsku strandgæslunni fyrir óeigingjarna og ómælda aðstoð. Landhelgisgæslan hefur öruggan og góðan grunn með framtíðarsýn, sem staðið verður fast við og byggt ofan á um leið og betur sést til lands. Koma TF-Sifjar er stór stund fyrir okkur öll.

 Hér má lesa ræðu Georgs Kr. Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar í heild sinni.

Myndir Landhelgisgæsla Íslands


Þetta vefsvæði byggir á Eplica